Jóhann Helgi Stefánsson skrifar
Ísland er auðlindaríkt land, en auðlindirnar sem oft er litið fram hjá í daglegri umræðu eru þær sem felast í gróðri og jarðvegi. Íslensk gróðurvistkerfi hafa sögulega orðið fyrir miklu raski svo sem rofi og því er einstaklega mikilvægt að hlúa að móunum okkar. Til þess er ómetanlegt að eiga góðar myndir af landi svo hægt sé að fylgjast með gangi mála. Þar gætir þú, kæri lesandi, komið sterkur inn. Með þátttöku í verkefninu Landvöktun – lykillinn að betra landi, sem ætlað er að kanna ástand þessara auðlinda og hvernig þær þróast, getur þú bætt í þennan mikilvæga þekkingarbrunn.
Landvöktun er svokallað lýðvísindaverkefni (citizen science project) sem gerir landeigendum og öðrum áhugasömum einstaklingum kleift að kynnast landinu sínu á nýjan hátt. Með því að taka þátt í Landvöktun getur þú fylgst með þróun gróðurfars og jarðvegs á þínu svæði og einnig haft áhrif á hvernig ástand landsins breytist í framtíðinni. Þetta er ekki aðeins tækifæri til að læra um landið þitt, heldur einnig að leggja þitt af mörkum til að bæta það.
Verkefnið fer fram með einföldum hætti. Þátttakendur ákveða sjálfir hvaða land þeir vakta og sinna vöktuninni á þeim tíma sem hentar þeim best. Snjallsímar eru notaðir til þess að skrá upplýsingar um ástand gróðurfar og jarðvegs. Þessi gögn eru síðan nýtt, ásamt öðrum gögnum, til að meta ástand landsins og bæta ákvarðanir sem snúa að sjálfbærri landnýtingu og endurheimt landgæða þar sem þörf er á.
Verkefnið er opið öllum! Hvort sem þú ert landeigandi, bóndi, náttúruverndarsinni eða bara einstaklingur sem vill læra meira um landið sitt, þá getur þú tekið þátt í því. Með einfaldri aðkomu og nýtingu snjalltækni getur þú fylgst með landinu þínu og tekið þátt í því að bæta ástand þess.
Við hvetjum þig til að skoða Landvöktun og ganga til samstarfs við GróLind. Á vef okkar, www.grolind.is/landvoktun, getur þú fengið allar upplýsingar um hvernig þú getur tekið þátt í verkefninu, auk þess sem við bjóðum upp á aðstoð ef þú hefur einhverjar spurningar. Við viljum fjölga þátttakendum og bjóðum ykkur innilega velkomin í þann kröftuga hóp sem tekur þátt nú þegar.
Jóhann Helgi Stefánsson,
sérfræðingur hjá Landi og skógi