Listasafnið á Akureyri: Allt til enda listvinnustofur um helgina og í október og nóvember
Framundan í september, október og nóvember eru þrjár ólíkar listvinnustofur í Listasafninu á Akureyri. Þar verður börnum á grunnskólaaldri boðið að vinna verk undir leiðsögn kraftmikils listafólks án endurgjalds, en skráning er nauðsynleg. Opið er fyrir skráningu í fyrstu listvinnustofuna sem fer fram um næstkomandi helgi, dagana 13. -14. september. Þá mun myndlistarkonan Sigga Björg bjóða börnum í 1.- 4. bekk í teiknivinnustofu þar sem búnar verða til nýjar skepnur sem ekki hafa áður sést í heiminum. Þær verða samsettar úr þekktum dýra- eða skordýrategundum og þeim gefin nöfn og sérstakir eiginleikar. Teikningar af nýju skepnunum verða unnar í raunstærð þar sem engar hömlur verða settar á stærð þeirra, svo lengi sem þær rúmast í húsakynnum safnsins.