Ég verð að viðurkenna að stundum tekur á að búa rétt við norðurheimskautsbaug, þrátt fyrir að snjórinn geti verið yndislegur, þá anda ég einhvern vegin alltaf léttar þegar hann loksins fer. Ég elska vorið enda gefur það fögur fyrirheit, snjórinn hörfar, gróðurinn skiptir um ham og fuglarnir syngja. Ég hef alltaf vitað að umhverfi okkar væri fallegt, en það var samt ekki fyrr en fyrir nokkrum árum sem ég fór að njóta þess af alvöru. Nú finn ég að það besta sem ég geri, bæði fyrir líkamlega og andlega heilsu, er að vera úti í náttúrunni, fá súrefni í kroppinn og koma púlsinum á hreyfingu. Þá er svo sannarlega ómetanlegt að hafa við túnfótinn jafn stórkostlegan bakgarð og við eigum og óteljandi frábæra stíga. Hér eru þær leiðir sem eru í uppáhaldi hjá mér: