„Mér líður alltaf vel eftir blóðgjöf, er bara hress og kát,“ segir Lilja Gísladóttir sem gaf blóð hjá Blóðbankanum á Glerártorgi í 50. sinn nýverið. Lilja hefur reglulega gefið blóð undanfarin ár. Hún fagnaði sextugsafmæli sínu á fullveldisdaginn, 1. desember síðastliðinn og hefur góð markmið varðandi blóðgjafir til framtíðar litið.
Fimmtíu blóðgjafir hjá konum jafnast á við 75 gjafir hjá körlum. Lilja er nú komin í hóp tæplega 100 kvenna á Íslandi sem gefið hafa blóð 50 sinnum eða oftar um ævina. Kynjahlutfall gjafa á Íslandi er að sögn Hönnu Vigdísar Jóhannesdóttur hjúkrunarfræðings hjá Blóðbankanum á Akureyri enn þannig að 30% eru kvenkyns gjafar á móti 70% karlkyns gjafa.

Blóðbankinn er vel tækjum búinn, og það væsir þvi ekki um innleggjendur
Ekki góð þróun að blóðgjöfum fækkar
„Þeim sem gefa blóð hefur almennt verið að fækka og það er ekki góð þróun. Við þurfum ávallt að eiga nægar birgðir og vera í stakk búinn að mæta hækkandi meðalaldri þjóðarinnar. Við höfum því verð að hvetja fólk til að koma við hjá okkur og kanna hvort það geti gefið blóð,“ segir Hanna Vigdís.
Hún bætir við að nú þegar hátíðir nálgast vilji Blóðbankinn tryggja að til séu nægar öryggisbirgðir þar sem söfnunardagar eru færri en vant er. „Við erum því þessa dagana að óska eftir blóði í öllum flokkum.“
Undrunarefni að konur gæfu blóð
Lilja hefur sett markið hátt og stefnir á að ná því markmiði að þegar hún fagnar sjötugsafmæli sínu eftir áratug hafi hún gefið blóð í 80 skipti. Konur mega gefa blóð þrisvar sinnum á ári, en karlar fjórum sinnum. „Ég stefni ótrauð að því að mæta þrisvar á ári næsta áratuginn og þá næ ég takmarkinu,“ segir hún kampakát.
„Ég man ekki alveg eftir því hvenær ég gaf fyrst blóð, en minnir að ég hafi verið 36 ára þegar ég fór í fyrstu blóðgjöfina. Það leið nú fyrst alltaf töluvert langt á milli og heimsóknir mína til Blóðbankans urðu ekki reglulegar fyrr en síðar,“ segir Lilja og minnist þess að á þeim tíma hafi körlum þótt þetta nokkuð undrunarefni að kona væri að gefa blóð. „Þetta var ekki eins algengt á þeim tíma,“ segir hún.
Hver blóðgjöf nýtist þremur sjúklingum
Lilja kveðst aldrei finna annað en vellíðan eftir blóðgjöf, hún sé hress og henni líði vel. Hún hvetur konur til að leggja leið sína í Blóðbankann og kanna hvort það henti þeim að gefa blóð. Flestar konur sem búa við góða heilsu og eru háar í járni ættu að vera færar um það. „Hver blóðgjöf getur nýst þremur sjúklingum svo það er til mikil að vinna. Með blóðgjöf getum við lagt mörgum lið og það er auðvitað ánægjulegt,“ segir hún og bætir við að um árin hafi heldur fjölgað í hópi kvenkyns blóðgjafa.
Fólk á aldrinum 18 ára og upp í sjötugt má gefa blóð. Lilja vonar að aldurstakmarkið verði hækkað því margir sem ná 70 ára aldri búi við góða heilsu. „Heilsa eldra fólk verður alltaf betri og betri og þeir sem hafa gefið gaum að heilsunni og farið vel með sig eru í fínu formi um sjötugt.“