Jólatónleikar Kórs Glerárkirkju verða haldnir sunnudaginn 7. desember næstkomandi og hefjast þeir kl. 16 í kirkjunni. Stjórnandi kórsins er Valmar Valjaots.
Flutt verður jólatónlist úr ýmsum áttum, íslensk og erlend og bæði lög sem allir þekkja og kunna og eins minna þekkt lög. Þar má nefna að kórinn tekur eitt jólalag frá heimalandi stjórnandans, Eistlandi. „Þetta verður góð blanda, eitthvað við allra hæfi,“ segir Eva Úlfsdóttir varaformaður kórsins.
Óskar sérstakur gestur
Sérstakur gestur er hinn eini sanni Óskar Pétursson sem áður hefur lagt kórnum lið á jólatónleikum. „Það er ævinlega góð stemmning á jólatónleikum Kórs Glerárkirkju og upplagt fyrir fólk að mæta og taka inn smá jólaanda nú í upphafi aðventu. Óskar er alltaf frábær, það verður enginn svikinn af því að mæta á tónleikana og næra jólaandann,“ segir Eva, en Óskar mun m.a. taka hið hátíðlega Hin helga nótt á tónleikunum. Þeir enda svo með hinum gamalkunna sálmi Heims um ból.
Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.