Fréttir

Kisukot enn rekið á heimili við Löngumýri

„Ég hef ekki heyrt í neinum síðan í byrjun desember,“ segir Ragnheiður Gunnarsdóttir sem rekið hefur Kisukot á heimili sínu í vel yfir áratug. Akureyrarbær hefur lýst yfir mögulegum stuðning við starfsemina um rekstur kattaathvarfs í bænum. Sex sveitarfélög í landinu styðja við slíka starfsemi, m.a. í formi húsnæðis, hita, rafmagns og fleira sem til þarf við rekstur af því tagi.

Lesa meira

Fyrsta sérhannaða heilsugæslustöðin á Akureyri tekin í notkun

„Það er almenn ánægja með útkomuna, þetta verkefni hefur tekist einstaklega vel,“ segir Jón Helgi Björnsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands en ný heilsugæslustöð í Sunnuhlíð á Akureyri var formlega tekin í notkun fyrr í vikunni. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra var viðstaddur opnun, ásamt nokkrum þingmönnum kjördæmisins, sveitarstjórnarfólki og öðrum gestum. Luku viðstaddir lofsorði á hvernig til hefur tekist.

Jón Helgi segir að um sé að ræða fyrstu heilsugæslustöðina á Akureyri sem sérhönnuð er fyrir þá starfsemi sem þar fer fram. Stöðin var starfandi í Amaróhúsinu í miðbæ Akureyri í um það bil fjóra áratugi og hafði löngu sprengt utan af sér það  húsnæði, þannig að þrengsli voru mikil og eftir að mygla greindist í húsinu fyrir nokkrum misserum var hafin leit að nýju húsnæði.

Lesa meira

Norðurorka hlýtur viðurkenningu fyrir góðan árangur í öryggis- og umhverfismálum

Forvarnaráðstefna VÍS var haldin í fjórtánda sinn í Hörpunni þann 29. febrúar síðastliðinn. Á ráðstefnunni sem haldin er árlega er fjallað um öryggismál og forvarnir fyrirtækja og stofnana frá öllum hliðum.

Rúsínan í pylsuendanum voru Forvarnaverðlaun VÍS en þau hljóta fyrirtæki sem þykja skara fram úr í öryggismálum og eru öðrum fyrirtækjum góð fyrirmynd. Verðlaunað var í tveimur flokkum og er horft til sterkrar öryggismenningar og markvissrar vinnu við að efla öryggisvitund og öryggishegðun meðal starfsfólks.

Í flokknum stærri fyrirtæki var Norðurorka í hópi þeirra þriggja fyrirtækja sem tilnefnd voru til Forvarnarverðlauna VÍS og hlaut viðurkenningu fyrir góðan árangur í öryggis- og umhverfismálum.

Við erum afar stolt og glöð að tilheyra þeim hópi fyrirtækja sem leggur áherslu á öryggi í allri sinni starfsemi og munum halda ótrauð áfram á sömu braut. Gert var myndband í kjölfar tilnefningarinnar þar sem farið er yfir þær ýmsu hliðar öryggismála sem hugað er að í starfseminni.

Horfa á myndband

 
Lesa meira

Götuhornið - Iðrandi sveitapiltur

Ég hef átt erfitt með svefn eftir að ég sendi götuhorninu bréfið sem var birt í síðustu viku. Eftirá að hyggja var það ekki alveg nógu nærgætið.  Mig grunaði að einhver kynni að hafa komist í uppnám vegna þess og allir vita að það að skrifa eða segja eitthvað sem kemur einhverjum í uppnám er grafalvarlegt ódæði.  Ég sendi þess vegna annað bréf og ég vona að Gunni birti það líka.  Í þessu bréfi ætla ég bara að skrifa um það sem er vel gert í bænum sem ég er að brasa við að inngildast.

Lesa meira

Óásættanleg undirmönnun lögreglunnar á Norðurlandi eystra

Það er óásættanlegt að á sama tíma og málum á borði embættis lögreglunnar á Norðurlandi eystra fjölgar gríðarlega, brotin séu að verða alvarlegri og ofbeldi gegn lögreglumönnum margfaldist, fáist ekki nauðsynlegar fjárveitingar til reksturs embættisins.

Lesa meira

Forvarnir hafa margar myndir og geta haft áhrif á allt samfélagið.

 Oft er talað um að börnin læri af því sem fyrir þeim er haft, vissulega er margt til í því og mikilvægt að huga að því að styðja þarf vel við framtíðina.

Lesa meira

Miðaldatónlist í Akureyrarkirkju: Fjölröddun frá fjórtándu öld

Klukkan 16 laugardaginn 9. mars 2024 flytur sönghópurinn Cantores Islandiae ásamt gestasöngvara og hljóðfæraleikurum Maríumessu eftir franska miðaldatónskáldið Guillaume de Machaut. 

Maríumessa Machauts er er eitt helsta meistaraverk miðaldatónlistar og framúrskarandi dæmi um sérstæða fjölröddun sinnar tíðar, sem er afar ólík þeirri fjölröddun sem síðar þróaðist í vestrænni tónlist.

 Eins og titill messunnar gefur til kynna var hún samin til heiðurs Maríu guðsmóður og ætluð til notkunar á hátíðum sem tileinkaðar voru henni innan kirkjuársins. Þetta er heillandi tónverk og mjög ólíkt kórverkum seinni alda sem oftast heyrast flutt. Fjórir hljóðfæraleikarar leika með kórnum á ýmis hljóðfæri fyrri alda sem sjaldan heyrast á tónleikasviði. Hrynur og hljómar í messunni orka sérkennilega á eyra nútímamanns og færa hann í horfinn heim og hálfgleymdan.

Efnisskrá tónleikanna má finna hér.

 

Lesa meira

Í forgangi verði að fjarlæga ökutæki og lausamuni sem blasa við frá þjóðvegi

Starfsleyfi Auto ehf. vegna reksturs bílapartasölu að Setbergi á Svalbarðsströnd er fallið úr gildi fyrir nokkrum árum.  Á lóð fyrirtækisins er talsvert magn ökutækja í misjöfnu ástandi auk gáma og annarra lausamuna. Ábendingar hafa borist til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra varðandi umgengni og slæma ásýnd lóðarinnar. Nefndin beinir því til eigenda fyrirtækisins að hefja þegar tiltekt á lóðinni.

Lesa meira

Lokaorðið - Börn óvelkomin

Um miðja síðustu öld voru vinkonurnar Elsa og Alla að ráða sig í sveit á sinnhvorn bæinn í Höfðahverfi. Í ráðningarferlinu kom babb í bátinn, annarri stúlkunni fylgdi tveggja ára drengur og hann vildi bóndinn ekki fá í vist, heldur vildi hann ráða barnlausu stúlkuna. Nú voru góð ráð dýr. Þær hringja í ekkjuna í Höfða og kanna hvort hún sé tilbúin að taka Elsu með barnið í vist. Ekki stóð á svari hjá Sigrúnu: ,,blessuð vertu, það er nóg pláss fyrir börn í Höfða”. Reyndist þetta mikið happaráð og mæðginin urðu hluti af Höfðafjölskyldunni.

Lesa meira

Ný vettvangsakademía á Hofsstöðum

Vettvangsakademíu fyrir kennslu og rannsóknir á sviði fornleifafræði, minjaverndar og menningarferðaþjónustu verður komið upp á Hofstöðum í Mývatnssveit.  Þar verður boðið upp á fjölbreytt námskeið á meistara- og doktorsstigi og aðstöðu til þverfaglegra vettvangsrannsókna, tilrauna og þróunar til að byggja upp þekkingu á íslenskri menningarsögu og hagnýtingu hennar.

Vettvangsakademían er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Háskólans á Hólum og Minjastofnunar og hlaut á dögunum styrk upp á 30.9 milljónir króna úr Samstarfi háskóla fyrir árið 2023. Alls var tæplega 1,6 milljarði króna úthlutað til 35 verkefna.

Rúnar Leifsson, forstöðumaður Minjastofnunar segir á vef Þingeyjarsveitar að verkefnið hafi legið í loftinu lengi en farið formlega af stað í vetur þegar sótt var um styrkinn. Stórkostlegar fornminjar séu á Hofsstöðum enda verið stundaðar fornleifarannsóknir þar nær samfellt í 100 ár. Miðstöðin sé hugsuð sem suðupottur fræðslu og rannsókna í fornleifafræði og menningarþjónustu. Hugmyndin sé ekki ný af nálinni enda hafi verið til tveir alþjóðlegir vettvangsskólar í fornleifafræði upp úr aldamótum, einn á Hólum í Hjaltadal og hinn á Hofsstöðum.

Fyrstu nemarnir með haustinu

Fljótlega verður auglýst eftir verkefnisstjóra, hann á meðal annars að útfæra og þróa starfsemi miðstöðvarinnar, gera starfsáætlun til 10 ára og finna lausnir til að gera verkefnið sjálfbært til framtíðar. Stefnt er að fyrsta tilraunanámskeiðinu á haustmánuðum og á Rúnar von á því að færri komist að en vilja enda mikil þörf fyrir aðstöðu til vettvangsnáms í fornleifafræði. Stefnt er að því að nemarnir dvelji á Hofsstöðum mánuð í senn.

Fornminjar og ferðamenn

Verkefnið er virkilega jákvætt fyrir ferðaþjónustuna í Mývatnssveit enda á meðal annars að þróa námsleiðir og rannsóknarverkefni sem tengja saman fornleifafræði og ferðamálafræði. Fornleifar og nýting þeirra er háð ýmsum lagalegum skyldum og takmörkunum og samþætting þekkingar á fornleifa- og ferðamálafræði er mikilvægur grundvöllur til sjálfbærrar og ábyrgrar nýtingu þeirra í ferðaþjónustu.

Lesa meira