Fasteignamat hækkar mest milli ára í Hörgársveit

Frá Hörgársveit
Frá Hörgársveit

„Það er ánægjulegt að sjá að fólk er tilbúið að greiða hærra verð fyrir íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu og greinilegt er að Hörgársveit dregur að sér nýja íbúa,“ segir Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri í Hörgársveit.

Fasteignamat íbúða sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun kynnti nýverið hækkar umfram landsmeðaltal í nágrannasveitafélögum Akureyrar. Það segir HMS merki um aukið líf á fasteignamarkaði í þeim sveitarfélögum sem næst eru Akureyri, þar sem íbúar geta sótt alla þjónustu þangað. Þetta er svipuð þróun og átt hefur sér stað í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins á síðustu árum. Mest hækkun fasteignamats var í Hörgársveit, 22% milli ára.

Enn fjölgar íbúðum

Snorri segir íbúum sveitarfélagsins hafa fjölgað um 50% undanfarin 6 ár og eru þeir nú um 900 talsins. „Íbúðum hefur fjölgað mikið í sveitarfélaginu á liðnum árum. Þá er verið að hefja byggingar á enn fleiri íbúðum, bæði í Lónsbakkahverfinu og í Hagabyggð,“ segir hann.

Gert er ráð fyrir á íbúðir í Lónsbakkahverfinu verði orðnar um 170 á næsta ári og í Hagabyggð er nú búið að úthluta 30 einbýlishúsalóðum og rúmlega 40 íbúðir koma þar til viðbótar í einbýli, par- og raðhúsum samkvæmt nýsamþykktu skipulagi.

Nýjast