Þakklátur fyrir heiðurinn og er mjög gíraður
„Ég er virkilega þakklátur fyrir þennan heiður og ætli ég orðið það ekki sem svo; mjög gíraður,“ segir Egill Logi Jónasson nýr bæjarlistamaður á Akureyri. Egill er framsækinn myndlistar- og tónlistarmaður segir í umsögn frá Akureyrarbæ, „sem hefur vakið athygli fyrir frumleg verk og ögrandi sýningar.“ Egill Logi gegnir lykilhlutverki í starfsemi Listagilsins og rekur m.a. tvær vinnustofur í húsnæði Kaktus, fyrir myndlist annars vegar og tónlist hins vegar. Hann hefur verið iðinn við að skapa vettvang fyrir unga og óháða listamenn, m.a. í gegnum tónlistarhátíðina Mysing.