
Langþráðir samningar fyrir fólkið í landinu
Í vikunni bárust þau gleðilegu tíðindi að Sjúkratryggingar Íslands og Læknafélag Reykjavíkur hafi náð samkomulagi um þjónustu sérgreinalækna. Hér er um að ræða langtímasamning til 5 ára og mun hann taka að fullu gildi þann 1. september næstkomandi. Samningurinn markar tímamót sem tryggir gott og jafnt aðgengi að mikilvægri læknisþjónustu óháð efnahag í samræmi við stefnu stjórnvalda. Það má með sanni segja að hér hafi verið lyft grettistaki en líkt og flestir vita hafa sérgreinalæknar verið samningslausir síðan í janúar 2019. Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, hefur lagt ríka áherslu á að finna samningsgrundvöll við sérfræðilækna og það hefur nú tekist með góðum árangri. Það að samningar hafi náðst er farsælt fyrir alla er koma að borðinu, þó sérstaklega fólkið í landinu.