Í forgangi verði að fjarlæga ökutæki og lausamuni sem blasa við frá þjóðvegi

Bílar í eigu fyrirtækisins hafa verið áberandi í bílastæðum og við götur á Akureyri, t.d. við Norður…
Bílar í eigu fyrirtækisins hafa verið áberandi í bílastæðum og við götur á Akureyri, t.d. við Norðurtorg, ráðhúsið, í Akurgerði og víðar Mynd Margrét Þóra

Starfsleyfi Auto ehf. vegna reksturs bílapartasölu að Setbergi á Svalbarðsströnd er fallið úr gildi fyrir nokkrum árum.  Á lóð fyrirtækisins er talsvert magn ökutækja í misjöfnu ástandi auk gáma og annarra lausamuna. Ábendingar hafa borist til Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra varðandi umgengni og slæma ásýnd lóðarinnar. Nefndin beinir því til eigenda fyrirtækisins að hefja þegar tiltekt á lóðinni.

Leifur Þorkelsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands eystra segir starfsleyfið hafa fallið úr gildi í júní árið 2020, ekki hafi verið sótt um endurnýjað leyfi og það því ekki veitt. Rekstur bílapartasölunnar sé því ekki í samræmi við lög um hollustuhætti og mengunarvarnir.  „Umgengni á lóðinni hefur því miður ekki verið til fyrirmyndar um tíðina. Fyrir nokkrum árum brann bíll á svæðinu og í kjölfarið fór sveitarfélagið fram á dómsúrskurð til þess að hreinsa hluta lóðarinnar.  Í kjölfarið lagðist ásandið tímabundið en núna virðist það aftur vera að færast í sama horf,“ segir Leifur.

Bílar í eigu fyrirtækisins hafa verið áberandi í bílastæðum og við götur á Akureyri, t.d. við Norðurtorg, ráðhúsið, í Akurgerði og víða um bæjarlandið, í flestum tilvikum án vitundar eða leyfis bæjaryfirvalda eða lóðarhafa. Þá er fjöldi bifreiða við Hamragerði nr. 15 á Akureyri.

Hirtu upp 7 númerslausa bíla

Leifur segir marga bílanna á númerum en skráðir „úr umferð“ í ökutækjaskrá og því ekki í almennri notkun. Í janúarmánuði síðastliðnum voru 7 númerslausir bílar í eigu Auto ehf teknir í vörslu Akureyrarbæjar að undangenginni aðvörun með álímingarmiða. „Heilbrigðisnefnd beinir því til fyrirtækisins að taka upp verklag sem tryggir að ökutæki á þess vegum verði geymd við viðunandi aðstæður á til þess ætluðum svæðum á vegum á vegum fyrirtækisins,“ segir hann.

Einnig fer nefndin fram á að fyrirtækið hefji þegar tiltekt á lóð sinni og í forgang verði sett að fjarlægja ökutæki og lausamuni sem blasa við frá þjóðvegi. Að mati nefndarinnar þarf Auto ehf. að taka upp verklag sem tryggir að ökutæki á þess vegum séu geymd á til þess ætluðum svæðum á vegum fyrirtækisins.


Athugasemdir

Nýjast