Bílarnir á númerum og því ekkert hægt að gera

Nokkrir bílar hafa staðið á bílaplani við Norðurtorg frá því um áramót en voru þeir til trafala við …
Nokkrir bílar hafa staðið á bílaplani við Norðurtorg frá því um áramót en voru þeir til trafala við snjómokstur á stæðunum á liðnum vetri. Mynd MÞÞ

„Það hefur talsvert verið kvartað yfir þessu við okkur, en því miður er lítið sem við getum gert eins og staðan er,“ segir Leifur Þorkelsson framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Norðurlands. Fyrirtækið Auto ehf á Svalbarðsströnd á mikið magn gamalla bíla sem þeir hafa dreift hingað og þangað um Akureyrarbæ.

Um talsvert langan tíma hafa sem dæmi þrír bílar í eigu fyrirtækisins staðið óhreyfðir á sunnanverðu planinu við Norðurtorg og þá er einnig bíll á vegum félagsins skammt frá, á plani neðan við bifreiðaskoðun Frumherja. Leifur segir að í vetur hafi nokkrir bílar í eigu Auto staðið við Ráðhúsið á Akureyri en þeir hafi verið fjarlægðir nú.

 

Þar sem bílarnir eru allir á númerum segir Leifur að Heilbrigðiseftirlit geti ekkert gert. „Við getum aðeins skipt okkur af númerslausum bílum og mér skilst að lögregla geti harla lítið gert heldur. Það sama gildir um eigendur og umráðamenn þeirra bílastæða þar sem bílarnir standa á. Þannig að staðan er sú að fyrirtækið Auto ehf. getur í rauninni geymt bíla sína þar sem þeim sýnist á meðan þeir eru á númerum,“ segir Leifur.

 Algjörlega galið

 Nokkrir bílar hafa staðið á bílaplani við Norðurtorg um alllangt skeið og voru til trafala við snjómokstur á stæðunum á liðnum vetri.  Bílarnir eru þrír en er lagt þannig að þeir taka undir sig átta bílastæði. Norðurtorgsmenn hafa reynt allt hvað þeir geta til að losa sig við bílana. Húsfélag Norðurtorg hefur gengið á milli aðila og óskað eftir liðsinni við að koma bílunum á brott en enn sem komið er án árangur. Rætt hefur verið við eigandann, lögreglu og heilbrigðiseftirlit en ekkert gengur samkvæmt upplýsingum frá húsfélaginu. „Það er algjörlega galið hvernig eigandi þessa félags getur valtað yfir einkaeigur annarra,“ sagði talsmaður húsfélagsins.

 

 


Athugasemdir

Nýjast