Verulega hallar á konur þegar kemur að blóðgjöfum, en einungis tvær konur eru á móti sex körlum í hópi blóðgjafa hér á landi. Bilið milli karla og kvenna í nágrannalöndum okkar er mun minna, þar eru konurnar fleiri. Áform eru uppi um að breyta þessu og fá fleiri konur til að gefa blóð.
Blóðbankinn á Akureyri er starfandi á 2. hæð á Glerártorgi og var nú nýlega bætt við fjórða hjúkrunarfræðingnum sem þar starfar, en Birgitta Hafsteinsdóttir einn starfsmanna bankans segir að starfsemin hafi aukist undanfarið. „Við erum líka að auka svigrúmið til að fara í markaðs- og kynningarmál, en nú erum við um það bil að hefja kynningar á okkar starfsemi hjá fyrirtækjum og í skólum,“ segir hún.