Frábær skemmtun fyrir alla

Skíðafólk fyrir utan Bjarnahús á Húsavík fyrir margt löngu. Mynd/ Skjalasafn Þingeyinga.
Skíðafólk fyrir utan Bjarnahús á Húsavík fyrir margt löngu. Mynd/ Skjalasafn Þingeyinga.

Hin sívinsæla Buch Orkuganga fer fram á skíðasvæði Húsavíkur á Reykjaheiði 8. apríl nk. Gangan er hluti af mótaröðinni Íslandsgöngur sem eru sjö talsins en um er að ræða viðburði sem ætlað er að auka þátttöku almennings á skíðagönguíþróttinni.

Saga skíðagöngu á Húsavík er að nálgast það að verða 250 ára gömul en hún hófst þegar Nikulás Buch kom til Húsavíkur á síðari hluta 18. aldar. Nikulás var góður gönguskíðamaður og vakti hann mikla athygli á meðal Húsavíkinga þegar hann þeyttist um á skíðum þegar heimafólk hafði aldrei séð annað eins.

Áhugi Húsvíkinga var þvílíkur að Nikulás gerði sér lítið fyrir og stofnaði fyrsta skíðaskóla heims. Til þess fékk hann styrk frá konunginum yfir Danmörku og Noregi en fyrsta veturinn voru nemendur við skíðaskóla Nikulásar þrír.

Það var ekki fyrr en árið 1921 sem stofnaður var skíðaskóli í Austurríki og í framhaldi verða til skíðaskólar í Sviss og Bandaríkjunum. Það er því óhætt að segja að Nikulás hafi verið langt á undan sinni samtíð.

 Þátttaka alltaf verið góð

Það er Skíðadeild Völsungs sem sér um utanumhald göngunnar en Kári Páll Jónasson einn skipuleggjenda lofar frábærri skemmtun.

„Við höfum haldið þessa göngu í nokkur ár og tekist ljómandi vel til. Þátttaka hefur verið góð eða að jafnaði 80-120 manns undanfarin ár,“ segir Kári og bætir við að ekki spilli fyrir að allir þátttakendur í Buch-Orkugöngunni fái 50% afslátt af aðgangi í Geosea og frían aðgang í Sundlaug Húsavíkur til að slaka á eftir gönguna. Skráning fer fram á netskraning.is

„Við reiknum með góðri skráningu þegar líður nær viðburðinum þegar fólk er farið að sjá veðurspá og svona. Við hvetjum auðvitað heimafólk til að mæta og taka þátt í þessari skemmtilegu göngu á okkar skemmtilega svæði við Reyðarárhnjúk. Við bjóðum upp á létta braut fyrir alla en um er að ræða 5 km. 10 km. og 25 km. göngu en lengsta gangan gefur stig í Íslandsgöngunni,“ útskýrir Kári.

Buch Orkugangan fer fram eins og áður segir um Páskahelgina og hefur Húsavíkurstofa verið að skipuleggja fjölbreytta dagskrá í tengslum við gönguna, enda von á fjölda gesta og heimafólk verður í sínu besta skapi.

Fjölbreytt páskadagskrá

„Ég er að skipuleggja viðburði á vegum Húsavíkurstofu en eins að taka saman aðra viðburði og setja þá inn í dagskrá. Þar verður af nógu að taka. Guðni Braga verður með sitt fræga tónlistarbingó á Gamla Bauk, það verður lifandi tónlist á Hlöðufelli, Pub-kviss á Húsavík öl. Eins verða fjórir viðburðir sem við reynum að hafa í Húsavíkurkirkju. Svo kemur Húsavíkurstofa að sýningu sem verður í Safnahúsinu sem verður um skíðasögu Þingeyinga. Það er verið að fara í gegnum yfir 300 myndir úr skíðasögunni okkar sem eru varðveittar á safninu. Þá er verið að huga að því hvort hægt verði að hafa óvæntan viðburð í bænum sem gaman yrði að segja frá síðar ef af verður,“ útskýrir Örlygur Hnefill Örlygsson sem veitir Húsavíkurstofu forstöðu.

Þá segir Örlygur frá því að metnaðarfullar áætlanir séu í undirbúningi fyrir árið 2027. „Þá eru 250 ár liðin frá stofnun skíðaskóla Nikulásar Buch, og sama ár verður svo auðvitað Völsungur 100 ára. í kringum þessi merkilegu tímamót ætlum við okkur gríðarlega stóra hluti. Skíðaskólinn hans Nikulásar á Húsavík var styrktur með fjárveitingu frá konunginum yfir Danmörku og Noregi. Við erum að tala um eitthvað af því kaliberi. Við ætlum að fá til okkar góða gesti til að taka þátt í dagskrá sem við erum þegar farin að leggja drög að. Við erum byrjuð að undirbúa 250 ára dagskrá í tilefni stofnunar fyrsta skíðaskóla í heimi,“ segir Örlygur og bætir við að lokum að opnun sýningarinnar í Safnahúsinu á Húsavík verði á föstudaginn langa.


Athugasemdir

Nýjast