
Garðurinn hans Gústa formlega vígður og afhentur Akureyrarbæ laugardaginn 27. ágúst
Garðurinn hans Gústa – glæsilegasti útikörfuboltavöllur landsins – verður formlega vígður og afhentur Akureyrarbæ til eignar og umsjónar laugardaginn 27. ágúst kl. 11:00. Við sama tilefni verður minnisvarði til heiðurs athafnamanninum og körfuknattleiksþjálfaranum Ágústi H. Guðmundssyni afhjúpaður við inngang vallarins. Ágúst hefði orðið 55 ára föstudaginn 26. ágúst næstkomandi en hann féll frá langt fyrir aldur fram á síðasta ári.