Hefur áhyggjur af aðhaldsaðgerðum ríkisins

Fyrirhugað hjúkrunarheimili á Húsavík. Tölvumynd/Arkís arkítektar.
Fyrirhugað hjúkrunarheimili á Húsavík. Tölvumynd/Arkís arkítektar.

Í nýrri fjármálaáætlun til fimm ára boðar ríkisstjórnin aðhald í rekstri þar sem meðal annars er gert ráð fyrir því að framkvæmdir verða settar á ís. Þó er gert ráð fyrri því að haldið verði áfram með framkvæmdir sem þegar eru hafnar.

Hjalli

Þann 18. nóvember 2021 var fyrsta skóflustunga tekin að nýju 60 rýma hjúkrunarheimili á Húsavík. Jarðvegsframkvæmdir hófust strax í kjölfarið og var lokið í lok sama mánaðar. Síðan þá hefur ekkert gerst en þá vaknar spurningin: Eru framkvæmdir hafnar samkvæmt skilgreiningu ríkisins?

Aðspurður hvort aðhaldsaðgerðir ríkisins muni bitna á þessu verkefni viðurkennir Hjálmar Bogi Hafliðason, forseti sveitarstjórnar Norðurþings að hann hafi vissulega áhyggjur. „Að sjálfsögðu höfum við áhyggjur af því en við höfum engin merki fengið frá ríkinu um að það eigi að hætta við þessa framkvæmd,“ segir hann og veltir því fyrri sér hvort ríkið geti verið að meina að þessi framkvæmd verði mögulega sett á ís.

„Við erum alveg búin að varpa fram þeim bolta og spyrja hvort ríkið sé að meina eins og þessa framkvæmd. Því það fylgdi líka að það á ekki að stoppa framkvæmdir sem þegar eru hafnar. Ég myndi segja að þessi framkvæmd sé svo sannarlega hafin og meira að segja fyrri löngu og ekkert gerst síðan. Við verðum bara að viðurkenna það að farið var fram úr sér í þessu verkefni . Nú þurfum við bara að ná þeim stað að komast áfram. Svo þurfum við að hugsa plan „B“ og við erum alveg farin að hugsa það. Við erum með það í spilunum hjá okkur,“ segir Hjálmar en vill ekki fara nánar út í innihald þessarar varaáætlunar en segir að framkvæmdin sé ákaflega dýr og lætur að því liggja að fara mætti ódýrari leið.

 Tímalínan orðin skökk

Hjálmar Bogi segir að samkvæmt upphaflegu plani hefði útboðsferli vegna framkvæmdanna átt að vera hafið. Svo er ekki. 

„Auðvitað er tímalínan löngu orðin skökk og kannski þurfum við að endurskoða hvar við erum yfir höfuð á henni. Er boltinn hjá ríkinu eða hjá sveitarfélögunum? Við teljum að boltinn sé hjá ríkinu, hjá heilbrigðis og fjármálaráðuneytinu. Okkur skilst að það sé enn verið að reikna út kostnaðarskiptingu sem við héldum að lægi fyrir. Það stendur nefnilega ekkert á sveitarfélögunum að taka þátt í þessu þó svo að við séum að krefjast þess að fá að vita hvernig hlutirnir eru og fá aðkomu að því hvernig er verið að vinna hlutina,“ segir Hjálmar Bogi og leggur áherslu á að fyrst og síðast snúist málið um þjónustu við aldraða.  


Athugasemdir

Nýjast