Samskipti eru kjarni góðs vinnustaðar
Undirrituð starfar sem ritari Heilsu- og sálfræðiþjónustunnar og hefur gegnt því hlutverki í um það bil eitt og hálft ár. Margir hafa reynslu af riturum í stöðum eins og skólaritara. Þá hugsar maður um einstakling sem veit einhvern veginn hvar allir húsinu eru staddir, heldur utan um fjarvistir nemenda og getur alltaf reddað öllu sem mann skortir. Þetta er allavega það sem kom í huga mér þegar ég sótti um starfið. Þessi lýsing hefur reynst að mestu leyti rétt og hef ég komist að því að starf ritara er sennilega með því fjölbreyttasta sem maður getur unnið í skrifstofuvinnu. Samskipti við viðskiptavini og fagaðila eru mikil í mínu starfi og er það kostur fyrir manneskju eins og mig sem finnst einstaklega gaman að spjalla.