Sumar í september

Þórhallur Guðmundsson.
Þórhallur Guðmundsson.

Ég er sjúkraþjálfari. Ég skrifa ekki mikið í vinnunni minni en þeir sem hafa verið hjá mér í þjálfun geta sjálfsagt kvittað undir það að ég tala mjög, mjög mikið og oft er ég svo heppinn að finna athyglisverð málefni til þess að krifja með skjólstæðingum mínum. Eru kolkrabbar með tálkn? Ef að hafmeyjar eru með hreistur ætti þá sporðurinn ekki að vera lóðréttur í sundi eins og á gullfiski frekar en að vera láréttur eins og á hvali? Er ekki fáránlegt að tugakerfið sé byggt á tíu í frekar en tólf? o.s.frv.

Undanfarið hef ég verið að ræða metrakerfið. Það eru flestir sammála um að metrakerfið sé jafn frábært og aðfangadagur á miðvikudegi og að Bandaríkjamenn séu vitlausir að vera ekki búnir að taka það upp. Því verða margir hissa þegar að ég sting upp á því að við göngum alla leið og tökum upp metríska mánaðakerfið.

Í upplýsingunni var hannað metrískt mánaðakerfi. 12 mánaða kerfi þar sem hver mánuður hafði þrjár tíudaga vikur. Árið hafði auk þess fimm sérstaka merkisdaga sem voru utan mánaðakerfisins t.d. upplýsingardagurinn, til þess að fagna biltingunni. Vandamálið við metríska mánaðakerfið var að það takmarkaði völd kirkjunar, sem er auðvitað bannað, og það náði aldrei sama fylgi og gamla rómverska tímatalið sem við notum í dag.

Rómverska tímatalið er samt algerlega galið. Við skulum byrja á því að skoða nöfnin á haustmánuðunum. sept-ember (sjö-ember), okt-óber (átt-ember), nóv-ember (ní-ember) og des-ember (tí-ember). Af hverju heita níundi og upp í tólfta mánuð latneskum tölunöfnum sem standa fyrir sjö og upp í tíu? Af því að tveir rómverskir keisarar ákváðu að troða sér inn í kerfið, þér Júlíus (júlí) og Ágústus (ágúst). Við skulum byrja á því að laga þetta. Færum júlí og ágúst þannig að þeir séu á eftir desember. Nýársdag höfum við enn 1. jan.

Ef ég spyr einhvern hvað það séu margar vikur í mánuði segja flestir að það séu fjórar vikur. Sannleikurinn er hinsvegar sá að það er aðeins einn mánuður með akkúrat fjórum vikum og það er febrúar og hann er bara með akkúrat fjórum vikum oftast. Næst skulum við laga þetta allir mánuðir eru nú með akkúrat fjórum vikum. Það eru alltaf 28 dagar í öllum mánuðum. Þetta þýðir að fyrsti hvers mánaðar er alltaf á sama vikudegi. Ef við ætlum að skella okkur í útilegu 14. september 2037 vitum við að það er sunnudagur. 14. hvers mánaðar er alltaf sunndagur. Fyrsti maí er alltaf á mánudegi og aðfangadagur er alltaf 24. desember.

Eitt vandamál. Við verðum að bæta við einum mánuði og einum degi. Auka mánuðurinn getur komið á eftir ágúst og heitið lúmíer (frönsku byltingunni til heiðurs auðvitað). Auka dagurinn gæti komið á eftir gamlársdegi. Svokallað hlédægur. Á hlaupári væri hlédægur 48 klukkustundir í staðin fyrir 24 klukkustundir. Kennitala barna sem fædd væru á næsta hlédægri myndi þannig byrja 000022. Við gætum þannig útrímt þessum útjaskaða brandara um það að þeir sem eru fæddir 29. febrúar séu bara… höhöhö… tíu ára á fertugsafmælinu sínu.

Þar höfum við það. Efni næstu upplýsingar. Þrettán launaseðlar á árinu í stað tólf, alltaf mánudagsfrí á fyrsta maí, engin misskilningur þegar verið er að skipuleggja útilegur og forsögulega dauðum rómverskum keisurum skammtaður tími í slabbmánuðum í staðin fyrir besta tíman úr sumrinu.

Að lokum vil ég árétta að kolkrabbar eru með tálkn, hafmeyjar eru ekki til og það væri klárlega betra að byggja tugakerfið okkar á 12.

Ég vil svo skora á Gunnar Már Gunnarsson í að skrifa pistil í næsta blað.


Athugasemdir

Nýjast