Kosningar og aðrir kappleikir

Svavar Alfreð Jónsson
Svavar Alfreð Jónsson

Það er gaman að fara á fótboltaleiki. Því betri sem mótherjarnir eru, því meira afrek verður sigurinn - eða tapið ásættanlegra. Þetta fatta ekki þeir stuðningsmenn sem leggja megináherslu á að níða niður andstæðingana og gera lítið úr þeim í stað þess að hvetja sitt lið.

Þá finnst mér að þeir hafi misst trúna á ágæti sinna manna en setji þess í stað allt traust sitt á að hinir missi marks og séu enn lélegri.

Sömu tilfinningu fæ ég þegar ég fylgist með umræðunum í yfirstandandi kosningabaráttu. Sumir frambjóðendur virðast ekki hafa meiri trú á eigin málstað en svo að megnið af þeirra málflutningi fer í að útmála hversu ómögulegir allir hinir séu.

Þegar ég greiði atkvæði á kjördag mun það fara til þess flokks sem er sannfærðari um ágæti eigin stefnu en ömurleika allra hinna. Því miður virðast sumir frambjóðendur ekki hafa mikið annað fram að færa en að hræða okkur á þeim hörmungum sem yfir okkur vofa ef þeim tekst ekki að ná völdum.

Ég sé eitthvað gott í stefnu allra flokka. Frambjóðendur ættu því ekki að vera í vandræðum með að höfða til okkar kjósenda með því að benda á það. Gangi þeim vel, öllum frambjóðendunum og hinum verðugu mótframbjóðendum þeirra.

Svavar Alfreð Jónsson


Athugasemdir

Nýjast