Hvað er að frétta?

Inga Dagný Eydal.
Inga Dagný Eydal.

Hamfarafréttamennska er vinsæl um þessar mundir. Fjölmiðlar virðast keppast um stóryrtar fyrirsagnir og ef það snýst ekki um öfgakenndan veruleika þá er það ekki fréttavert. Á okkur dynja fréttir af hneykslismálum frægra, af fárviðri og farsóttum, skuggalegu næturlífi og svo má endalaust telja. Einu sinni var þetta hlutverk svokallaðrar „gulrar pressu" og þótti ekki sérlega vönduð fréttamennska en nú virðast allir fjölmiðlar vera dottnir í sama farið, klikkbeitur og æsifréttir. Og við spilum auðvitað ósjálfrátt með, máttur fjölmiðla er mikill og erfitt að halda sig við sinn eigin veruleika í flóði af æsifréttum.

Við sjáum þetta vel um þessa Verslunarmannahelgi sem blásin var af og um leið voru tennurnar dregnar úr venjulegum æsifréttum af þessari helgi. Sumarstarfsmenn á helgarvaktinni fjölmiðla urðu hálf vandræðalegir við að leita uppi eitthvað æsilegt en fólk er flest bara að dunda sér heima eða í fjölskylduútilegu og lítið um ofdrykkju og óhöpp. Guði sé lof fyrir það. Við eigum nefnilega öll okkar eigin veruleika sem er jú allskonar, með sorgum og gleði en ekkert endilega fréttnæman svona á mælikvarða fjölmiðla og samfélagsmiðla.

Fréttnæmast í mínu lífi í sumar er líklega þegar sonarsonur minn hjólaði á tvíhljóli í fyrsta sinni á sinni stuttu ævi, ég kláraði að bera á nýju girðinguna utan um garðinn og það hversu sælir og hlýjir júlídagarnir voru okkur. Sérhver dagur ber í sér fréttir af góðum hlutum að gleðjast yfir og erfiðum hlutum að sættast við, fæst af þeim ratar í fjölmiðla en eru samt mikilvægir og sannir. Auðvitað þurfum við að vita hvernig veröldin snýst en líklega er ekki mikil hætta á að það sem er mikilsverðast og okkur er nauðsynlegt að vita, finni sér ekki leið til okkar. En það gæti verið hollt að gefa fjölmiðlunum aðeins minna rými og snúa athyglinni að okkur sjálfum og okkar fólki, berjasprettu og hlýjum síðsumardögum. Njótið vel.


Athugasemdir

Nýjast