Ekki eintóm sæla
„Nú á það að vera ánægja og æðisleg upplifun að eiga barn“
Þessi staðhæfing hljómaði í eyrum mér í útvarpsþætti einn morguninn þegar ég var í göngutúr í haustsvalanum. Rætt var við þrjár ungar tvíburamæður sem ræddu m.a. um þá upplifun að eignast tvö börn í einu. Þáttastjórnandi sló þar fram ofangreindri fullyrðingu um upplifun þess að eignast barn. Mæðurnar ungu tóku vissulega undir þetta að hluta til en komu einnig inn á að þetta væri ekki bara dásamlegt og eintómur dans á rósum. Sjónarhorn sem heyrist kannski of sjaldan en ég verð nokkuð oft vitni af í starfi mínu sem ljósmóðir.