Harðlífi og háttvísi á Akureyri

Ragnar Sverrisson, kaupmaður.
Ragnar Sverrisson, kaupmaður.

Fyrir fjórum mánuðum bar ég opinberlega fram fyrirspurn til bæjarstjórnar Akureyrar þar sem óskað var eftir að hún beitti sér fyrir íbúaþingi í haust um þær viðamiklu breytingar sem gerðar voru í vor á þágildandi skipulagi miðbæjarins. Því miður hefur fyrirspurninni ekki enn verið svarað, fjórum mánuðum síðar. Enda þótt bæjarstjórnin okkar sé ekki þekkt fyrir röskleika þykir mér harðlífið sem kemur í veg fyrir að svara svona einfaldri spurningu lýsa alvarlegu innanmeini sem kemur í veg fyrir beint og hreinskiptið samtal við bæjarbúa um málefni sem þeir láta sig miklu varða. 

Gott tækifæri

Í fyrirspurninni gat ég þess að með slíku þingi fengju bæjarfulltrúar kjörið tækifæri til að færa fram rök sín fyrir einstökum breytingum umrædds skipulags og rætt þær við þátttakendur. Leiðrétt hugsanlegan misskilning meðal bæjarbúa og aukið um leið skilning á breytingunum. Það hlýtur að vera verðugt viðfangsefni bæjarstjórnar og sannarlega „einnar messu virði.”

Auðvitað gerði ég mér grein fyrir að þessi þegjandalega staða bæjarfulltrúa gæti komið upp og enginn þeirra sæi ástæðu til að ansa tillögu minni. Þess vegna beindi ég fyrirspurninni sérstaklega til forseta bæjarstjórnar, Höllu Bjarkar Reynisdóttur, í þeirri von að þar reyndist eitthvert lífsmark og einhver heilindi í það minnsta gagnvart þeim mörgu sem hafa lagt mikið af mörkum undanfarin ár við endurskipulagningu miðbæjarins.  Nei, ekki aldeilis. Við svörum ekki hverjum sem er, við erum óhult hér í skjóli Akureyrarflokksins og látið okkur í friði. 

Ummæli Árveigar

Nú gæti einhver haldið að þetta kvak sé bara heilaspuni manns sem enginn nennir að hlusta á; hann sé spældur og einn með alvarlegar athugasemdir um þennan holskurð á miðbænum og því ekki svara verður. En þessu er ekki þannig varið. Nægir að benda á eftirfarandi ummæli Árveigar Aradóttur  þegar hún brást við fullyrðingu bæjarfulltrúa um að raunveruleg kynning og samráð hefði farið fram: „Ég fer með rétt mál að „ALDREI” hefur verið haldinn kynningarfundur fyrir bæjarbúa þar sem bæjarbúar og kynningaraðilar koma saman og málin kynnt og hægt að spyrja spurninga. Það var ekki haft samráð við bæjarbúa né hagsmunaaðila í þessum miklu breytingum sem gerðar voru á þessu deiliskipulagi.”  Þessi orð Árveigar lýsa ágætlega hug og sárindum margra bæjarbúa til vinnubragða bæjarstjórnar í máli þessu. Fjölmörg svipuð ummæli mætti tilgreina en þetta verður að nægja að sinni.

Íbúalýðræði þegar það hentar

Einstakir bæjarfulltrúar hafa tíðum tjáð elsku sína á íbúalýðræði og nauðsyn þess að hlusta á bæjarbúa og skynja vilja þeirra.  Á síðasta vori fjallaði til að mynda Eva Hrund Einarsdóttir bæjarfulltrúi um lausagöngu katta í bænum og lagði áherslu á að „taka málefnalega umræðu um þetta mál við bæjarbúa.”  Af þessu má ráða að hún, og ef til vill fleiri bæjarfulltrúar, treysta sér ágætlega til að skiptast á skoðunum við bæjarbúa um mótun reglna um útigöngu katta. Hins vegar veigra sömu bæjarfulltrúar sér við  að ræða skipulagsmál beint við fólkið í bænum rétt eins og það sé ekki fært um að leggja nokkuð vitlegt fram í þeim efnum. Eða hitt, að bæjarfulltrúar treysta sér ekki sjálfir til að standa frammi fyrir samborgurum sínum og færa fram rök fyrir holskurðinum á miðbænum eða hlusta á rök gegn þeirri ósvinnu allri. Það skyldi þó ekki vera að þeir séu hreinlega hræddir um að lenda í því að standa á gati og geta ekki rökstutt mál sitt án þess að láta sérfræðinga innan bæjarkerfisins eða úti í bæ styðja sig og leiða við hvert fótmál? Alltént virðast þeir hafa meiri kjark til að ræða reglur um útigöngu katta við bæjarbúa.

Góðir mannasiðir

Að sjálfsögðu þarf að komast að niðurstöðu um hvernig samskiptum manna og katta skuli háttað í bænum. Mörgum þykir ekki síður skipta máli hvernig mannfólkið í sama bæ hagar sér gagnvart hvert öðru; hvernig það talar við hvert annað, svarar hvert öðru og komi almennt kurteislega fram við samborgara sína.  Sannarlega tala allir góðir kattavinir með virðingu til katta sinna og svara þeim góðlátlega þegar þeir mjálma.  Er til of mikils mælst að við mannfólkið tileinkum okkur einnig slíka háttvísi innan okkar hóps? Það hljóta að teljast góðir mannasiðir og hafa löngum verið til marks um raunverulegt menningarstig sérhvers samfélags.          

Ragnar Sverrisson

kaupmaður

 

 

 

 

 

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast