Hinn fullkomni dagur

Sr. Svavar Alfreð Jónsson.
Sr. Svavar Alfreð Jónsson.

Á ýmsu gengur í hjónavígslum eins og þegar hringaberinn, fimm ára sonur brúðhjónanna, harðneitaði að láta hringana af hendi. Upphófst æsilegur eltingarleikur á milli kirkjubekkjanna sem brúðkaupsgestir og ekki síður brúðhjónin fylgdust spennt með.  Faðir brúðgumans var lafmóður en hróðugur þegar hann kom að altarinu með hin gylltu djásn og hægt var að halda áfram með athöfnina. 

Einu sinni varð einhver misskilningur og brúðurin gleymdist heima. Við biðum óþreyjufull eftir henni í forkirkjunni. Loksins staðnæmdist leigubíll frá Bifreiðastöð Oddeyrar á kirkjuhlaðinu með einn farþega, brúðina, yndisfagra í hvítum kjól. Ekki var henni hlátur í huga og þótti vissara að leyfa henni að ná mesta roðanum úr andlitinu áður en innri dyrum var upp lokið og brúðarmarsinn byrjaði. 

Hringar og vendir hafa týnst,  brúðir, brúðgumar, svaramenn og brúðarmeyjar hafa hrasað, vitlaus lög hafa verið spiluð og gestir hafa mætt seint og sumir í vitlausa kirkju hjá vitlausum brúðhjónum. 

Þegar aldraður svaramaður, faðir brúðarinnar, hugðist draga hringana úr vasa sínum á þar til gerðu augnabliki, fór hann ofan í vitlausan vasa og afhenti brúðhjónunum hátíðlega lyklana að Lödunni sinni. 

Tvennt höfum við lært af öllu þessu: 

Fullkomleiki fullkominna daga er ekki fólginn í hnökraleysi. 

Ekkert hjónaband er fullkomið nema hjónin geti hlegið saman að allri vitleysunni. 

 


Athugasemdir

Nýjast