
Félagar í Búsögu gera upp gömul útihús í Saurbæ
„Við stefnum á að opna sýningu í Saurbæ á næsta ári,“ segir Sigurður Steingrímsson formaður Búsögu, búnaðarsögusafns sem er félag áhugafólks um söfnun og varðveislu dráttarvéla og annarra tækja sem tilheyra búnaðarsögunni. Félagsmenn hafa unnið hörðum höndum að því að gera upp gömul útihús við Saurbæ í Eyjafjarðarsveit , m.a. fjárhús í því skyni að koma þar fyrir gömlum dráttarvélum til sýnis. Unnið var að kappi um liðna helgi að koma dráttarvélunum inn í nýja sýningarsalinn og létu sjálfboðaliðar hörkufrost ekki hafa mikil áhrif á vinnugleðina.