Hrútaþukl tekið hátíðlega á Húsavík
Mærudagar á Húsavík verða haldnir um komandi helgi en hátíðin er 30 ára að þessu sinni. Í tilefni tímamótanna má eiga von á sérlega fjölbreyttri dagskrá sem ætti að henta fólki á öllum aldri.
Einn af stórviðburðum Mærudaga er án efa Hrútasýningin eða Hrútaþukl eins og það er jafnan kallað.
Fjáreigendafélag Húsavíkur stendur að viðburðinum en Aðalsteinn Árni Baldursson hefur haldið utan um keppnina frá upphafi. Aðspurður þorði hann ekki að fullyrða að hrútasýningin hafi verið hluti af Mærudögum hvert einasta ár frá upphafi hátíðarinnar en það fari nærri.
Sjarmerandi keppni
Það er að minnsta kosti ekki ofsögum sagt að Hrútasýningin sé orðin ómissandi þáttur í þessari bæjarhátíð Húsavíkinga sem er orðin ein sú stærsta á landinu. „Það er svo mikill sjarmi í kringum þetta og ómissandi þáttur í Mærudögum. Þú sérð að þetta er klukkan 21 á föstudagskvöldi þannig að þetta er besti tíminn,“ segir Aðalsteinn.
Hvað er hrútaþukl?
En fyrir þá sem ekki hafa orðið vitni að hrútasýningunni þá er ekki úr vegi að Aðalsteinn útskýri hvað felist í keppni af þessu tagi. „Fjáreigendur á Húsavík koma saman með sína fallegustu hrúta og Hrútasýningin felst í því að það er keppt um það hver á fallegasta hrútinn. Það eru fengnir tveir dómarar sem eru þekktir fyrir að dæma og þeir velja fallegasta hrútinn til undaneldis,“ útskýrir Aðalsteinn og bætir við að ekkert megi klikka. „Framparturinn þarf að vera góður og það þurfa að vera auka kótilettur í hryggnum og lærasneiðarnar þurfa að vera þykkar og góðar.“
En það er ekki bara læri og hryggur sem er þuklaður og grandskoðaður, það þarf líka að athuga hvað leynist undir skepnunni, því allt snýst um þetta hæfni hrútsins til undaneldis.
„Síðast en ekki síst þá þarfa að vera pungur undir hrútnum, því það eru alveg dæmi um það að hrútar hafa verið punglausir eða með eitt eista. Það er að mörgu að hyggja þegar á að meta hvaða gripur er bestur til undaneldis,“ segir Aðalsteinn léttur í bragði.
Dómgæslan er heldur ekki háð tilviljunum heldur þarf að fylgja kúnstarinnar reglum við þuklið og þá er mikilvægt að hrúturinn sé klaufsnyrtur og almennt vel hirtur.
Aðalsteinn segir engum vafa undirorpið um það að Hrútasýningin sé einn af aðalviðburðum Mærudaga og vekur ætíð mikla athygli. Það hafi meira að segja verið sjónvarpað frá sýningunni.
Það eru tilfinningar í þessu
Innan fjáreigendafélags Húsavíkur er keppninni ekki tekið með léttúð enda gríðalega mikið sem liggur undir.
„Sá sem að sigrar fær eignabikar og montrétt að sjálfsögðu,“ segir Aðalsteinn og leggur áherslu á að montrétturinn skuli ekki vanmetinn og keppnin geti tekið á taugarnar.
„Það eru alveg dæmi um það að fjáreigendur hafa ekki þorað niður fyrir bakka á meðan á keppni stendur en hafa verið í símasambandi til að fá upplýsingar um gang mála. Þetta er alveg gríðarlega mikilvægt fólki. Stundum hefur líka komið fyrir að keppendur hafi hraunað yfir dómara á meðan á keppni stendur en það skal tekið fram að það er ekkert VAR í þessu. Það er bara augnablikið sem gildir,“ segir Aðalsteinn að lokum.
Hrútasýningin fer fram fyrir framan Þekkingarnet Þingeyinga klukkan 21 á föstudagskvöld.
Athugasemdir