Sveitarstjóri Norðurþings hvetur til bjartsýni í samfélaginu þrátt fyrir erfiða stöðu í atvinnumálum vegna rekstrarstöðvunar PCC BakkiSilicon á Bakka. Tækifærin séu sannarlega til staðar.

Starfshópur um atvinnumál á Húsavík og nágrenni skilaði skýrslu sinni í síðustu viku og var hún rædd á fundi ríkisstjórnarinnar á föstudag. Forsætisráðherra skipaði starfshópinn í júní sl. en verkefni hans var að kortleggja stöðu atvinnumála á svæðinu og vinna tillögur að viðbrögðum stjórnvalda í kjölfar tímabundinnar rekstrarstöðvunar kísilvers PCC á Bakka.
„Ég hef mikla trú á tækifærunum á Bakka og í nágrenni Húsavíkur. Forsætisráðuneytið hefur átt í nánu samstarfi við Norðurþing og aðra hagaðila við gerð þessarar skýrslu. Og við höfum meðal annars rætt við sex áhugasama fjárfesta sem vilja koma að uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu. Gagnaver eru til dæmis möguleiki sem getur farið hratt í framkvæmd,“ var haft eftir Kristrúnu Frostadóttir forsætisráðherra í tilefni af útgáfu skýrslunnar.
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings segir í samtali við Vikublaðið að hún sé ánægð með samantektina í skýrslunni og hvetur til bjartsýni í samfélaginu enda séu tækifærin til staðar.
„Í heildina finnst mér samantektin um stöðu atvinnulífsins og tækifærin í Norðurþingi vera góð. Mér finnst gott að ríkisstjórnin er núna komin með myndina á sama hátt og hún blasir við okkur, að hér séu gríðarleg tækifæri til uppbyggingar og þörf á að hraða orkuafhendingu inn á þetta svæði. Mér finnst gott að þetta komi skýrt fram í skýrslunni og viðbrögð ráðuneytisins séu jákvæð gagnvart því sem þarf að gera hérna til að koma verkefnum í framkvæmd,“ segir Katrín og bætir við að fjölmargir aðilar hafi lýst yfir áhuga á að byggja upp rekstur á Bakka.
Þá segir Katrín að jákvætt sé að ríkið hyggist einfalda leyfisferla en í skýrslunni umræddu kemur fram að komið verði á fót „allt á einum stað“ (e. one stop shop) ferli sem veiti fjárfestum aðstoð og leiðbeiningar. Þá er jafnframt lagt til að ráðast í og afgreiða með skilvirkum hætti styrkingu flutningskerfis raforku og auka orkuöflun á Norðausturlandi.
„Í skýrslunni dregur ríkið saman atriðin sem þarf til þess að liðka fyrir uppbyggingu á Bakka og rætt var við fyrirtækin sem vilja byggja upp. Lagt er til að ríkið greiði fyrir verkefnastjóra á móti okkur til að keyra verkefnin áfram og það eru sóknarfæri fólgin í því“ útskýrir Katrín en í skýrslunni er lagt til að fenginn verði verkefnastjóri sem hefur m.a. það hlutverk að hraða vinnu við þróun nýrra verkefna á Bakka og nýta þá innviði sem eru þegar til staðar.
Þrátt fyrir að margt jákvætt sé að finna í skýrslu starfshópsins þá liggja ekki fyrir lausnir við stöðunni sem komin er upp hjá kísilveri PCC en Katrín segir að það hafi ekki komið sérstaklega á óvart.
„Ég átti alveg von á að kaflinn um PCC yrði eins og hann er. Því miður er ríkið ekki með verkfæri til að koma beint inn í stöðuna eins og hún er núna enda starfar verksmiðjan á samkeppnismarkaði. Staðan er slæm, sérstaklega gagnvart því fólki sem er núna að klára sinn uppsagnarfrest. Einnig gagnvart öðrum fyrirtækjum sem voru á einn og annan hátt að þjónusta PCC og hafa misst miklar tekjur, við þurfum að verja þau eins og kostur er. Ég veit að ríkið er að skoða tollamálin en það eru miklar áskoranir í rekstri PCC m.a. út af alþjóðlegum markaðsaðstæðum“ segir Katrín.

Þá dregur hún upp atriði í skýrslunni sem mun gagnast atvinnulífinu í heild á svæðinu varðandi innviðauppbyggingu en lagt er til að uppbyggingu Skjálfandafljótsbrúar verði flýtt. Þá er tillaga að tilraunaverkefni til tveggja ára sem snýr að því að vera með heilsársopnun á Dettifossvegi. Einnig er stefnt á að uppbygging hjúkrunarheimilis á Húsavík hefjist fljótlega á næsta ári.
„Síðan er ríkið komið með myndina núna á þá innviði sem vantar, ef að ákveðin verkefni koma, eins og t.d. Carbfix; þá þarf að koma pípu með heitu vatni ofan frá Þeistareykjum niður á Bakka. Með vinnunni kringum skýrsluna er Ríkið meðvitað um að það þurfi ákveðna innviðauppbyggingu miðað við hvaða verkefni byggist upp á svæðinu,“ segir Katrín.
Þann 20. nóvember n.k. mun Eimur, Norðurþing, Landsvirkjun og Íslandsstofa standa fyrir ráðstefnu þar sem sjónum er beint að framtíð Bakka við Húsavík sem miðstöð sjálfbærrar atvinnuuppbyggingar. Katrín segir ráðstefnuna mikilvægan þátt í því að fá samfélagið í lið með hagaðilum til að byggja upp til framtíðar.
„Allir þessir aðilar verða með erindi á ráðstefnunni um tækifærin á Bakka, hvernig við getum sótt fram og hvert við stefnum. Þar fyrir utan á ég von á að fulltrúar einhverra þeirra verkefna sem við erum í samræðum við um uppbyggingu verði á staðnum, til að kynna stöðuna á þeim. Það er mikilvægt að fólkið í samfélaginu sé meðvitað um það sem við erum að gera í sambandi við Bakka því það skiptir miklu máli að það sé meðbyr í samfélaginu gagnvart þessari uppbyggingu og að samfélagið sé með í uppbyggingunni,“ útskýrir Katrín og bætir við að það sér full ástæða til bjartsýni fyrir framtíðinni án þess að líta fram hjá alvarleika stöðunnar sem uppi er í dag.
„Við erum með bullandi tækifæri í kringum okkur út af orkunni hér á svæðinu og af því við erum tilbúin með skipulagið á Bakka í tengslum við grænan iðngarð. Ekki síður vegna þess að við erum með frábært samfélag sem getur vaxið með þeim atvinnutækifærum sem sannarlega munu koma,“ segir Katrín og bætir við að skipulagið miðist við að þau fyrirtæki sem byggja upp starfsemi á Bakka í framtíðinni geti notið góðs af hvort öðru.
„Eftir því hvaða fyrirtæki veljast þarna inn, þá geta þau líka stutt hvert annað , það er hugmyndin með grænum iðngarði. T.d. þessi verkefni sem eru til skoðunar núna, þau geta afhent auðlindir sín á milli. Það er í takt við hringrásarhagfræðina sem er verið að keyra á þessu svæði. Þó ég sé raunsæ á stöðuna sem blasir við okkur akkúrat núna, þá er ég virkilega bjartsýn fyrir framtíðina á svæðinu,“ segir Katrín að lokum.