Þarf alltaf að vera sól?

Vilborg Gunnarsdóttir skrifar
Vilborg Gunnarsdóttir skrifar

Hvað liggur konu á rúmlega miðjum aldri á hjarta nú þegar haustið minnir á sig með beljandi rigningu og ekki er undan neinu að kvarta.

Hún er svo heppin að vera góð til heilsunnar, eiga dásamlega fjölskyldu og sífellt fleiri barnabörn. Þarf alltaf að vera sól?

Ég sá á dögunum frásögn frá Mannauðsdeginum; frásögn konu sem greinst hafði með krabbamein og þá leið sem hún kaus að fara gagnvart vinnustað sínum. Þarna sagði hún hugrökk frá sínum bestu og verstu stundum í gegnum þetta ferli. Sem fyrrverandi mannauðsstjóri get ég ekki annað en dáðst að því hvernig hún sjálf og hennar stjórnendur brugðust við.

Hún valdi til dæmis að halda áfram að vinna á meðan á meðferð stóð. Ég held að það sé ekki algengt enda verða flestir sem fara í gegnum lyfja- og geislameðferðir mjög veikir og hafa hvorki þrek né orku til að gera annað en að takast á við það verkefni. Skilaboð hennar voru ekki þau endilega að fara sömu leið og hún heldur lutu þau að stjórnendum fyrirtækja. Hún rakti hvernig þeir studdu hana með sveigjanleika í starfinu og reglulegum samskiptum við hana. Sjálf stýrði hún ferlinu varðandi hverjir „vissu“ og hvenær og fór yfir og gaf góð ráð varðandi hvað virkar vel að segja og hvað ekki.

Við lesturinn rifjuðust upp fyrir mér dæmi úr starfi mínu fyrir Alzheimersamtökin þar sem ungum einstaklingum sem greinst höfðu með heilabilunarsjúkdóm var ýmist bolað úr starfi eða þeir sögðu sjálfir upp af ótta við að geta ekki sinnt starfi sínu sem skyldi. Í flestum tilfellum virtist lítið sem ekkert hafa verið rætt um hvaða möguleikar væru í boði fyrir starfsmanninn eða hann ekki hvattur til að endurskoða ákvörðun sína og í sameiningu að finna leið til að halda áfram þeirri virkni sem starfið sannarlega er.

Vanþekking og fordómar?

Þarna er um að kenna vanþekkingu og fordómum. Það mikilvægasta af öllu sem einstaklingar með heilabilunarsjúkdóma eiga að gera er að halda áfram að vera virkir eða jafnvel að byrja virkni hafi þeir ekki meðvitað stundað hana áður. Nýjar rannsóknir styðja þetta og skjólstæðingar sem notið hafa þjónustu Seiglunnar í Hafnarfirði finna þetta á eigin skinni.

Það gerist, en þó allt of sjaldan, að stjórnandi á vinnustað þar sem starfsmaður hefur greinst með heilabilunarsjúkdóm, hefur samband við ráðgjafa og biður um aðstoð og góð ráð. Þau eru mörg. Sem dæmi að ræða við starfsmanninn og spyrja hann hvað hann treystir sér til að gera og hver hans vilji er. Hafi hann sinnt mjög flóknum verkefnum má ýmist auka aðstoð eða bjóða honum að færa sig á milli starfa. Bjóða styttri vinnudag eða vinnuviku. Svo er mikilvægt að skapa þannig andrúmsloft að samstarfsfólk sé upplýst um stöðuna – auðvitað að höfðu samráði og samþykki starfsmannsins – og hvernig það getur stutt vinnufélagann. Undirbúa svo starfslokin í fallegu samkomulagi við viðkomandi.

Ég hvet stjórnendur vinnustaða til að setja sig í samband við ráðgjafa samtakanna í tilvikum sem þessum og ekki væri verra ef sögur þessara einstaklinga rötuðu á dagskrá næsta Mannauðsdags.

Höfundur er áhugamaður um almenna velferð.

Nýjast