A! Gjörningahátíð hófst í gærkvöldi í Listasafninu á Akureyri með gjörningi KGB þríeykisins, en það skipa Kristján Helgason, Birgir Sigurðsson og Guðmundur Steinn Gunnarsson. Að þeim gjörningi loknum tóku við gjörningar Vénýjar Skúladóttur, Ashima Prakash og Évu Berki. A! er þriggja daga alþjóðleg gjörningahátíð sem haldin er árlega, nú í tíunda sinn og stendur fram á laugardagskvöld. Ókeypis er inn á alla viðburði. Hátíðin er sú eina sinnar tegundar á Íslandi þar sem einungis er um gjörningalist að ræða úr öllum listgreinum. Dagskrá hátíðarinnar má sjá á listak.is.