Fimmtudaginn 26. janúar, fór fram afhending á styrkjum Norðurorku til samfélagsverkefna vegna ársins 2023. Athöfnin fór fram í Menningarhúsinu Hofi, sem er vel við hæfi þar sem Norðurorka er bakhjarl Menningarfélagsins.
Í október 2022 auglýsti Norðurorka hf. eftir umsóknum um styrki til samfélagsverkefna fyrir árið 2023 og rann umsóknarfrestur út 15. nóvember. Fram kom að veittir væru styrkir til menningar- og lista, íþrótta- og æskulýðsstarfs og góðgerðarmála. Markmið með styrkjunum er að styðja við sjálfsprottið starf, starfsemi frjálsra félagasamtaka og framtak einstaklinga sem stuðlar að farsælli þróun samfélagsins, lífsgæðum og fjölbreyttu mannlífi.