Gestirnir kveðja í Listasafninu á Akureyri

RAgnar Kjartansson, The Visitors.
RAgnar Kjartansson, The Visitors.

Þessa dagana stendur yfir síðasta sýningarvika á verki Ragnars Kjartanssonar, The Visitors, sem lýkur sunnudaginn 17. september í Listasafninu á Akureyri. Sýningin hefur staðið síðan 4. febrúar síðastliðinn og var sett upp í tilefni af 30 ára afmæli Listasafnsins. Á síðasta sýningardegi kl. 14 mun Hlynur Hallsson, safnstjóri, eiga listamannaspjall við Davíð Þór Jónsson, píanóleikara og annan tónlistarhöfund verksins.

The Visitors hefur farið sigurför um helstu listasöfn heims og einungis einu sinni áður verið sýnt á Íslandi, í Kling og Bang 2013. The Guardian valdi verkið besta listaverk 21. aldarinnar eftir að það var fyrst sett upp í Migrossafninu í Zürich 2012.

„Alls hafa tæplega 14.000 manns lagt leið sína í safnið frá því að við opnuðum sýninguna og þegar hæst stóð í sumar voru gestir á þriðja hundrað á dag. Á sýningartímanum er því um metaðsókn að ræða,“ segir Hlynur Hallsson, safnstjóri. „Gestum Listasafnsins hefur fjölgað jafnt og þétt á síðustu árum, en viðlíka aðsókn eins og á þessu ári hefur ekki sést áður. Við erum auðvitað í skýjunum yfir aðsókninni og frábærum viðtökum gesta. Það eru einhverjir töfrar í þessu verki Ragnars Kjartanssonar því það nær til ótrúlega breiðs hóps og algengt er að fólk komi aftur og aftur til að sjá verkið og auðvitað aðrar sýningar safnsins.“

The Visitors er myndbandsverk á níu skjáum. Hópur vina og tónlistarmanna safnast saman á hinu hnignandi Rokeby Farm í Upstate New York og verður vettvangur þess sem Ragnar kallar feminískt, níhilískt gospel lag: marglaga portrett af vinum listamannsins, könnun á möguleikum tónlistar í kvikmyndaforminu og dregur titil sinn af síðustu plötu ABBA, The Visitors, sem mörkuð var aðskilnaði og ósigri. Lagið er samið við textabrot úr myndbandsverkum og gjörningum Ásdísar Sifjar Gunnarsdóttur. Tónlistarfólkið sem fram kemur í verkinu eru Davíð Þór Jónsson, Gyða Valtýsdóttir, Kristín Anna Valtýsdóttir, Ólafur Jónsson, Þorvaldur Gröndal, Shahzad Ismaili, Ragnar Kjartansson og Kjartan Sveinsson.

 


Athugasemdir

Nýjast