Sjö bæjar- og sveitarstjórar skrifa um grunntilgang Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Grein fjögurra bæjarstjóra á höfuðborgarsvæðinu gagnrýnir nýtt frumvarp um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og talar um „kaldar kveðjur“ til íbúa suðvesturhornsins. Við, bæjar- og sveitastjórar á landsbyggðinni, teljum mikilvægt að minna á að tilgangur Jöfnunarsjóðs er einmitt sá að jafna aðstæður milli ólíkra sveitarfélaga – og þar stendur landsbyggðin frammi fyrir margvíslegum og flóknum áskorunum.
Mörg sveitarfélög á landsbyggðinni, þar á meðal okkar eigin, eru víðfeðm og fjölkjarna. Þar þarf að reka stjórnsýslu og þjónustu yfir stór landfræðileg svæði með dreifðum byggðarkjörnum.
Við höldum úti margs konar þjónustu og starfsemi í hverjum byggðarkjarna. Söfnum sorpi þar sem vegalengdir spanna hundruði kílómetra, greiðum fyrir snjómokstur og vetrarþjónustu sem er stór útgjaldaliður ár eftir ár. Sjáum um skóla- og velferðarþjónustu fyrir eldra fólk, fatlað fólk og börn, líka þau sem búa í dreifðri byggð þar sem kostnaður á hvern notanda verður hærri en í stærri og þéttbyggðari sveitarfélögum.
Þetta eru ekki lúxusútgjöld. Þetta eru lögbundin verkefni sem við verðum að standa skil á – fyrir alla íbúa okkar sveitarfélaga.
Í grein bæjarstjóranna er sérstaklega talað um að Reykjavík og höfuðborgarsvæðið beri þunga þjónustubyrði vegna þjónustu við fólk utan svæðisins. Það er alveg rétt en á móti koma miklar tekjur frá ríkinu í formi fasteignagjalda/útsvars vegna þessara stóru stofnana sem þar eru reknar.
Þá má ekki líta fram hjá því að fjöldi byggðarkjarna á landsbyggðinni gegnir sambærilegu hlutverki á sínum svæðum. Ef á að byggja inn þjónustusvæðisálag í jöfnunarkerfið – sem við erum reiðubúin að ræða – þá verður slíkt að ná til fleiri en tveggja stærstu þéttbýlisstaða landsins. Annars er jöfnunarkerfið ekki að þjóna hlutverki sínu.
Í grein bæjarstjóranna er sérstaklega gagnrýnt að skerða eigi framlög Jöfnunarsjóðs til þeirra sem ekki nýta hámarksútsvar. Við skiljum að það er óvinsælt að hækka útsvar – en það gengur ekki upp að sum sveitarfélög lækki útsvarið og ætlist svo til að Jöfnunarsjóður bæti þeim upp tekjurnar á sama tíma og önnur sveitarfélög halda útsvari í hámarki til að standa undir sínum skyldum.
Þetta ákvæði er ætlað að tryggja jafnræði – og það þarf að vera grundvallarregla í hverju jöfnunarkerfi.
Þá viljum við einnig minna á að lækkun útsvars er ekki eina leiðin til að koma til móts við íbúa – sveitarfélög hafa ýmsar aðrar leiðir til að styðja við fólk, svo sem með aukinni þjónustu, niðurgreiðslum eða sértækum afsláttum sem nýtast beint í daglegu lífi.
Við minnum á að hlutverk Jöfnunarsjóðs er fyrst og fremst að jafna aðstæður sveitarfélaga og eru sambærileg kerfi á Norðurlöndum og víða um Evrópu. Hann á að tryggja að íbúar um allt land geti búið við sambærilega grunnþjónustu, óháð því hvort þeir búi í fjölmennu sveitarfélagi á suðvesturhorninu eða litlum byggðarkjarna á Austurlandi.
Við höfum sjálf bent á atriði sem mætti bæta í frumvarpinu – en meginmarkmiðið stendur: Að jafna aðstöðu sveitarfélaga um land allt. Það er sanngjarnt, nauðsynlegt og á að vera leiðarljósið í allri umræðu um Jöfnunarsjóð.
Dagmar Ýr Stefánsdóttir sveitarstjóri Múlaþings
Gerður Björk Sveinsdóttir bæjarstjóri Vesturbyggðar
Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings
Kristinn Jónasson bæjarstjóri Snæfellsbæjar
Sigfús Ingi Sigfússon sveitarstjóri Skagafjarðar
Sigríður Júlía Brynleifsdóttir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar
Sigurjón Andrésson bæjarstjóri sveitarfélagsins Hornafjarðar