Að fá rafræn skilríki fyrir fatlaða barnið sitt!!!

Hrafnhildur Jónsdóttir
Hrafnhildur Jónsdóttir

Hrafnhildur Jónsdóttir á Akureyri, móðir tveggja fatlaðra drengja skrifar pistil á Facebookvegg sinn í morgun sem hefur vakið mikla athygli. Hrafnhildur gaf samþykki fyrir birtingu pistils hennar hér.

Guð minn á himninum, það er fátt sem veldur mér meiri pirring, reiði og særindum en þegar ég þarf að berjast fyrir að fá eitthvað fyrir mitt barn sem aðrir fá á núll einni.

Já fyrir flesta er þetta svo einfalt, en læknirinn okkar var búinn að nefna við okkur þegar sonur okkar var að verða 15 ára að það þyrfti að fara að huga að þessu. Því um leið og hann verður 16 ára get ég t.d. ekki leyst út lyfin hans. Þá þarf hann að koma í apótekið og leysa út sín lyf nema hann gefi mér sérstakt umboð. Hann getur ekki skrifað, lesið né valið sér leyninúmer. Þá vandast málið.

Það er eins og ég eigi fyrsta barnið á Íslandi sem er fatlað og geti ekki valið sér pin númer…. Í alvöru. Hvar erum við stödd árið 2025!? Það eru nokkur ár síðan ég sá fyrstu fréttina um þetta frá foreldri sem allt í einu gat ekki leyst út lífsnauðsynleg lyf fyrir barnið sitt og ég hugsaði að þetta verður nú leyst þegar ég þarf að fara að standa í þessu.

 

Hóf vinnuna tímalega

En allavega fór ég tímalega í þessa vinnu, byrjaði á að gera eins og læknirinn hans var búin að benda á, ef þú þekkir einhvern sem vinnur í banka sem þekkir þig talaðu við þann aðila. Ég byrjaði á því, þau vissu ekkert hvernig þau ættu að snúa sér í þessu. Ég sagði að hann geti ekki skrifað, valið pin og svo er ég örugglega ekki að ná honum hingað inn í bankann. Á endanum var mér sagt að það fyrsta sem ég þurfti að gera væri að redda honum löglegum skilríkjum, vegafbréfi eða nafnskirteini. Hann á ekki vegabréf, hefur aldrei farið til útlanda og er mjög ólíklega að fara til útlanda næstu árin.

En allavega, við gerum það og þá þurftum við aðstoð því hann er ekki auðveldur við okkur foreldrana og við myndum aldrei ná honum í að sitja kyrr fyrir framan myndavélina. Kennari í skólanum hans var svo yndisleg að fara með hann í „verkefni“ í bæinn, ég var búin að fara á undan, fylla allt út, útskýra fyrir afgreiðslunni hvernig málið væri, svo sat ég í leyni í bakaríinu og fylgdist með.

Hélt það erfiðasta væri búið

Þetta gekk vonum framar og ég var viss um að það erfiðasta væri búið. Fór í símann og fékk auka símanúmer fyrir hann til að nota í þessi rafrænuskilríki.

Starfsmaður bankans hafði samband við Auðkenni og spurði hvernig best væri að gera þetta og fékk þetta svar:“Með vegabréfi er hægt að setja upp skilríki í auðkennis appi í sjálfsuppsetningu sem myndi líklega henta best í þessu tilfelli.“

Ég fer inná þetta Auðkennisapp og skoða það, málastjóri okkar var einnig búin að senda mér link eftir að ég spurði hvernig maður sækir um þetta. Það var slóð á rafræn skilríki fyrir ólögráða.

Þar voru þrjár leiðir sem ég gat valið. A-B-C Valdi þar þá leið sem mér fannst henta best, fyllti út það sem þurfti að gera og svo fékk ég skilaboð um að mæta á næstu skráningarstöð innan 30 daga, forsjáraðili og ólögráða einstaklingurinn og með þetta fína leyfða persónuskilríki „nýja vegabréfið“. Yes… nú hlýtur þetta alveg að vera komið, Við drögum hann með okkur í bankann og vonandi fæst hann til að setjast og ég get rétt bankastarfsmanninum tölur sem „hann“ valdi sér.

NEI – það gengur ekki

Gerum þetta í gær, sest sjá þjónustufulltrúa og segi að ég sé hér komin til að sækja um rafræn skilríki fyrir son minn, ég sé búin að fylla eitthvað út á netinu og eigi að mæta hingað með skilríki, hún fyllir eitthvað út og segir svo er hann hér, já segi ég, hann situr þarna með pabba sínum, hann er fatlaður og getur ekki skrifað, en hér er pin númer. NEI… þá gengur það ekki… Starfsmaðurinn segist aldrei hafa lent í þessu og viti ekki hvernig eigi að snúa sér í þessu, spyr eftir aðstoð en sama þar, aldrei afgreitt neinn með svona fötlun. En þau komast að þeirri niðurstöðu að ég þarf að fylla út umsókn um beiðni um aðlögun hjá Auðkenni, þau séu þau einu sem geti veitt svona undanþágu.

Úffff… af hverju sagði enginn mér þetta fyrr… en allavega, ég fylli þetta út í bílnum á leiðinni heim (tap á þessari heimsókn þar sem hún kostaði okkur kassa af pepsí max og prinspóló sem voru mútur til að fá hann í bankann)

Miklu betra og einfaldara ..

Svo kom svar frá Auðkenni í morgun: sem gerir mig brjálaða og er ástæða fyrir þessum pistli…

Fyrst kemur einhver langloka um að þetta séu eitt að hörðustu skilyrðum um að einstaklingur sé sá sami og skilríkin eru gefin út á og eru því miður engar undanþágur veittar. Ef einstaklingur getur ekki beitt skilríkjum sjálfur þá hefur Auðkenni ekki heimild til þess að afhenda honum fullgild rafræn skilríki.

Miklu betra og einfaldara fyrirkomulag er að umsjónaraðili fái aðgang að þeim kerfum og vefsíðum sinna skjólstæðinga sem nauðsynlegt er með þeirra eigin rafrænu skilríkjum. Fái s.s. umboð frá þeim þjónustuaðilum sem sýsla með hans mál.

Svo segir í póstinum, „í dag er þetta auðsótt mál hjá bönkunum en því miður vantar þennan umboðsmöguleika hjá þjónusutveitendum.“

Krókaleiðir

Ég þarf s.s. að hafa samband við ALLA þjónustuveitendur og sækja um umboð. Þið vitið hvað þarf orðið rafræn skilríki í nánast allt, milli Heilsuveru og Hljóðbókasafns. Fær hann þá bara aldrei rafræn skilríki??!!

Og af hverju þarf ég að fara alla þessa krókaleið til þess að fá þetta svar.?

Þetta er eitt af dæmum 4-6 vaktar foreldra fatlaðra barna, hingað til hefur mér verið treyst fyrir öllu sem viðkemur honum en nú fer að líða undir lok þess tímabils. Og eitt enn… ég þarf að sitja margra daga námskeið til þess að verða persónulegur talsmaður hans þegar hann verður 18 ára og ég á tvo fatlaða drengi….

Takk þið sem gáfuð ykkur tíma til að lesa

Nýjast