Þar verði stuð!

Sunna Hlín Jóhannesdóttir Framsókn og Brynjólfur Ingvarsson óháður skrifa
Sunna Hlín Jóhannesdóttir Framsókn og Brynjólfur Ingvarsson óháður skrifa

Breyting á aldurssamsetningu kallar á breytta hugsun í skipulagi. Huga þarf betur að þörfum og þjónustu til handa eldri borgurum sem vilja njóta lífsins fram á efri ár. Landssamband eldri borgara hefur talað fyrir nýrri hugsun í nálgun við húsnæðiskosti eldra fólks, svokallaða lífsgæðakjarna sem eru af danskri fyrirmynd. Í slíkum kjörnum er lögð áhersla á fjölbreytt búsetuform.

Bæjarfulltrúar Framsóknar og bæjarfulltrúi Brynjólfur Ingvarsson hafa talað fyrir uppbyggingu slíks kjarna á Akureyri og óskað eftir því að tekið verði frá sérstakt svæði fyrir íbúa eldri en 60 ára með möguleikum á fjölbreyttri þjónustu, svo sem aðstöðu fyrir hárgreiðslustofu, sjúkraþjálfara, lækni, hjúkrunarfræðinga, kaffihús og félagsaðstöðu. Horft yrði sérstaklega til svæðisins vestan Kjarnagötu í Hagahverfi sem gæti þá einnig þjónustað íbúa Nausta- og Hagahverfis og er í nálægð við fallegar gönguleiðir.

Á svæðinu væri einnig hægt að skipuleggja lóð undir heilsugæslu og hjúkrunarheimili en fyrst og fremst skipuleggja lifandi samfélag með fjölbreyttum íbúðum og þjónustu sem yrði góður valkostur við þá dreifðu byggð sem nú þegar er í boð fyrir eldri borgara.

Þetta er langhlaup og því ekki seinna vænna að byrja strax

Í vinnuhópi um endurskoðun á aðalskipulagi hefur verið tekið jákvætt í þessa hugmynd en sú vinna fer ekki lengra á þeim vettvangi. Til að þoka málum áfram ákváðu bæjarfulltrúar Framsóknar og bæjarfulltrúi Brynjólfur Ingvarsson að óska eftir umræðu um lífsgæðakjarna á bæjarstjórnarfundi og lögðu fram tillögu um stofnun vinnuhóps sem var samþykkt. Spennandi verkefni sem verður áhugavert að sjá þróast í góðu samstarfi við hlutaðeigendur.

Bæjarfulltúar á Akureyri, Sunna Hlín Jóhannesdóttir Framsókn og Brynjólfur Ingvarsson óháður.


Athugasemdir

Nýjast