Lenti í rútuslysi,,Mest ánægður með að mamma lenti ekki í þessum ósköpum"

Ólafur Aron Pétursson      Myndir aðsendar
Ólafur Aron Pétursson Myndir aðsendar

 „Ég tók sætið hennar mömmu í þessari ferð, hún ætlaði að fara en breytti um kúrs og fór annað og ég hoppaði inn í staðinn. Ég er mest ánægður með að mamma lenti ekki í þessum ósköpum,“ segir Ólafur Aron Pétursson starfmaður á búsetukjarni við Sporatún sem var einn þeirra starfsmanna Akureyrarbæjar sem lenti í rútuslysi skammt sunnan við Blönduós í liðinni viku. Hópurinn var að koma heim eftir ráðstefnuna Þjónandi leiðsögn sem haldin var í Portúgal. Ríflega 20 manns voru um borð þegar rútan valt og rann eftir þjóðveginum. Þeir sem voru mest slasaðir voru fluttir með þyrlu á Landspítala og með sjúkraflugi.

Ólafur Aron hefur haft hægt um sig frá því óhappið var og er stífur í öxl, baki og hálsi. Hann var með talsvert af glerbrotum í líkamanum eftir slysið líkt og flestir sem voru um borð í rútunni.

„Ég var sofandi þegar óhappið varð, en vaknaði upp við hróp og köll og fann að rútan rásaði á veginn og valt síðan. Ég geri mér ekki grein fyrir hvað þetta var langur tími, einhverjar sekundur líklega, en maður gat ekkert gert á meðan nema vona það besta.“ segir hann um upplifun af slysinu. Hann nefnir að verr hefði getað farið, en hár bakki er fram af veginum vinstra megin við og hefði vart þurft að spyrja að leikslokum ef rútan hefði húrrað niður þar megin. „Ég er þakklátur fyrir að þetta fór ekki á versta veg og allir sluppu lifandi frá þessu,“ segir Ólafur Aron.

Reyndu að hjálpa hvert öðru

Eftir að rútan stöðvaðist og fólk fór á stjá var farið að huga að þeim sem mest voru slasaðir og segir hann að bundið hafi verið um opin sár og beinbrot áður en fyrstu viðbragðsaðilar komu á vettvang. „Fólk var alveg í sjokki en það gerðu allir sitt besta til að hjálpa hvert öðru, þeir sem voru í standi til þess. Mér fannst fyrstu menn á vettvang vera mjög fljótir að koma, ég upplifði þetta ekki sem langa bið. Vinnubrögðin á vettvangi voru mjög fagmannleg og traustvekjandi,“ segir hann.

Ólafur Aron fór ásamt fleirum á Heilsugæslustöðina á Blönduósi og þar voru glerbrot plökkuð úr honum en síðan lá leiðin með bílum björgunarsveita til Akureyrar og höfðu allir farþegar um borð viðkomu á bráðadeild Sjúkrahússins á Akureyri þar sem hugað var að frekari meiðslum þeirra. „Eftir þá heimsókn fór ég bara heim og hef verið að jafna mig síðan. Ég er aðeins lemstraður enn þá en held að þetta komi allt saman,“ segir hann.

Ólafur Aron skarst nokkuð eins og sjá má.


Athugasemdir

Nýjast