Umsóknum rignir inn vegna lögreglunámsins
Eins og ítarlega hefur verið fjallað um á dagskrain.is ákvað mennta- og menningarmálaráðherra að ganga til samninga við Háskólann á Akureyri vegna kennslu- og rannsóknarstarfsemi á sviði lögreglufræða.
„Frá því að tilkynningin barst á mánudagskvöldið frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu um að háskólanum hafi verið falið námið hefur fyrirspurnum rignt inn,“ segir Heiða Kristín Jónsdóttir, skrifstofustjóri hug- og félagsvísindasviðs við Háskólann á Akureyri en tæplega 60 umsóknir bárust fyrsta sólarhringinn eftir að innritun hófst.
Námið er sveigjanlegt og býður upp á blöndu af staðarnámi og fjarnámi. Meirihluti umsækjenda hyggst hefja nám í lotubundnu fjarnámi. Kynjahlutföllin eru nokkuð jöfn í þessum fyrsta hópi umsækjenda, en konur eru fjórum fleiri en karlar. Um 64% umsókna eru af suðvesturhorni landsins en aðrar umsóknir eru víðsvegar að af landinu, þ.m.t. 9% frá Akureyri.
Þóroddur Bjarnason, nýr brautarstjóri námsbrautar í lögreglufræði segir að innritun í diplómunámið sé opin öllum sem uppfylla almenn hæfisskilyrði til háskólanáms. Engar fjöldatakmarkanir eru á innritun á haustmisseri. „Innritun í nám á haustmisseri 1. árs tryggir ekki að viðkomandi nemandi fái inngöngu í starfsnám, hann þarf að uppfylla skilyrði um hreint sakavottorð, íslenskan ríkisborgararétt, líkamlegt ástand og ýmsa aðra þætti. Þeir sem ekki fá inngöngu í starfsnámið geta engu að síður lokið háskólaprófi í lögreglufræði,“ segir Þóroddur. Í lok misseris verður tekið við allt að 40 nemendum í starfsnám sem Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu annast í samstarfi við Háskólann á Akureyri.
Tengdar fréttir:
Áratuga reynsla í uppbyggingu starfsnáms á háskólastigi