Áratuga reynsla í uppbyggingu starfsnáms á háskólastigi
Rektor Háskólans á Akureyri, Eyjólfur Guðmundsson fagnar mjög ákvörðun menntamálaráðherra að fela háskólanum nám í lögreglufræði á háskólastigi. „Háskólinn á Akureyri er með allar nauðsynlegar undirstöður fyrir námið á háskólastigi s.s. afbrotafræði, sálfræði og lögfræði. Við fögnum því trausti sem Háskólanum á Akureyri er sýndur með þessari ákvörðun.“
Háskólinn á Akureyri er með áratuga reynslu í að byggja upp starfsnám á háskólastigi. „Það er ekki verið að flytja Lögregluskólann til Akureyrar heldur er háskólanum falin sú vinna að byggja upp lögreglufræði (police science) sem alþjóðlega fræðigrein á háskólastigi. Þungamiðja starfsþjálfunar t.d. forgangsakstur og meðferð skotvopna verður í höndum Mennta- og starfsþróunarseturs við embætti ríkislögreglustjóra,“ segir rektor.
Mikill metnaður er lagður í skipulag námsins sem unnið hefur verið í nánu samráði við fagaðila innan sem utan HA. Áhersla er lögð á sveigjanlegt nám sem þýðir að nemendur í lögreglufræði þurfa ekki að flytjast búferlum til að stunda námið. „Mikil áhersla var lögð á þetta fyrirkomulag í tveimur skýrslum undirbúningsnefnda og í umsögn Landssambands lögreglumanna. Við erum vel í stakk búin til að uppfylla þessar þarfir,“ segir Þóroddur Bjarnason, prófessor sem verður í forsvari fyrir nýju brautina.
Nám í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri verður 120 eininga tveggja ára starfstengt diplómanám en einnig verður hægt að ljúka bakkalárnámi í lögreglufræði til 180 eininga. Jafnframt verður í boði sérsniðið námskeið fyrir lögreglumenn sem taka að sér verklega þjálfun nemenda. Í tillögum HA er gert ráð fyrir nýju fræðasetri þar sem rannsóknir í lögreglufræði verða byggðar upp en rannsóknir á því sviði hafa hingað til verið af skornum skammti hér á landi.
Rektor er einstaklega stoltur af þeirri faglegu og miklu vinnu sem starfsfólk HA hefur lagt á sig til þess að undirbúa flutning lögreglunáms á háskólastig – breyting sem er nauðsynleg til að styðja faglega við bakið á einni mikilvægustu stétt landsins. Háskólann á Akureyri mun vinna að þessu verkefni í nánu samstarfi við stjórnvöld, fagfélög og innlenda og erlenda háskóla.
Hægt er að kynna sér námið á vefsíðu háskólans en þar verður hægt að innrita sig í námið strax á næstu dögum.
Tengdar fréttir: