Tilboð Háskólans á Akureyri hagstæðara
Fjárhagsforsendur mennta- og menningarmálaráðuneytisins fyrir diplómanámi í lögreglufræði gerði ráð fyrir að tveggja ára nám kostaði 175 milljónir á ári. Kennsluþáttur tilboðs HA er 41,5 milljónum kr. lægri en þær forsendur ráðuneytisins. Í tillögu HA felast þó meiri umsvif í kennslu en kemur fram í útboðsgögnunum um diplómanámið, m.a. með því að bjóða upp á sveigjanlegt nám um allt land, möguleika á þriggja ára bakkalárgráðu í lögreglufræði og tækifæri fyrir starfandi lögreglumenn að ljúka prófgráðu á háskólastigi. Umsóknir eru þegar orðnar rúmlega hundrað og námið hefst 12. september.
Í tillögum HA er jafnframt lögð rík áhersla á eflingu rannsókna í lögreglufræði sem hingað til hafa verið af skornum skammti við íslenska háskóla. Þóroddur Bjarnason, brautarstjóri í lögreglufræði, segir afar brýnt að þróa rannsóknarstarf á þessu fræðasviði. Hann segir nauðsynlegt að byggja upp rannsóknasamstarf við innlenda og erlenda háskóla á þessu sviði og samvinnu við nýstofnað Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu (MSSL) við embætti ríkislögreglustjóra.
Háskólinn á Akureyri hefur hvorki aðgang að tillögum annarra menntastofnana vegna náms í lögreglufræði á háskólastigi né sundurliðaðri niðurstöðu matsnefndar mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Í fréttum hefur komið fram að heildarkostnaður vegna kennslu í lögreglufræði við Háskólann á Akureyri sé hærri en tillögur Háskóli Íslands gerðu ráð fyrir. Þóroddur segir þetta rangt. „Miðað við þær tölur sem komið hafa fram í fjölmiðlum er kostnaður vegna kennslu í lögreglufræði við HA 6,8 milljónum lægri á ári en hann hefði verið við HÍ,“ segir Þóroddur.
Háskólinn á Akureyri telur mikilvægt að sátt og gagnsæi ríki um lögreglunámið. Þess vegna hefur háskólinn ákveðið að birta þátttökutillöguna í heild á vefsíðu sinni. Rektor Háskólans á Akureyri, Eyjólfur Guðmundsson, hvetur hina háskólana til að gera sínar tillögur einnig opinberar sem fyrst.
Tengdar fréttir:
Áratuga reynsla í uppbyggingu starfsnáms á háskólastigi
Innritun í lögreglunámið hefst innan skamms
Lögreglunámið til Háskólans á Akureyri