Yfirlýsing um ábyrga ferðaþjónustu

Dettifoss. Mynd úr safni.
Dettifoss. Mynd úr safni.

Yfirlýsing um ábyrga ferðaþjónustu verður undirrituð af forsvarsfólki yfir 200 fyrirtækja í Háskólanum í Reykjavík í dag klukkan 14:30 að viðstöddum forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, sem er verndari verkefnisins.

Það eru Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og Íslenski ferðaklasinn sem standa að verkefninu í samstarfi við Ferðamálastofu, SAF, Íslandsstofu, Stjórnstöð ferðamála, Markaðsstofur landshlutanna, Höfuðborgarstofu og Safetravel.

Ábyrg ferðaþjónusta er hvatningarverkefni um að fyrirtæki tengd ferðaþjónustu sammælist um nokkrar skýrar og einfaldar aðgerðir um ábyrga ferðaþjónustu.

Tilgangur verkefnisins er að stuðla að því að Ísland verði ákjósanlegur áfangastaður ferðamanna um ókomna tíð sem styður við sjálfbærni fyrir komandi kynslóðir þjóðarinnar.

Yfirlýsingunni verður fylgt eftir með fræðsludagskrá fyrir fyrirtæki um samfélagsábyrgð og sjálfbærni.

Uppfært klukkan: 10:32

Þess ber að geta að undirskrift yfirlýsingarinnar fer einnig fram á eftirtöldum stöðum á sama tíma:

Í húsnæði Þekkingarnets Þingeyinga á Húsavík, í húsnæði Markaðsstofu Norðurlands á Akureyri, í húsnæði  Austurbrúar á Reyðarfirði og í húsnæði Markaðsstofu Vestfjarða á Ísafirði

Nýjast