Yfirlýsing frá stjórn Draupnis vegna þess að liðið er hætt þátttöku í 3.deild karla í knattspyrnu.
Af óviðráðanlegum orsökum neyðumst við í stjórn Draupnis til þess að draga karlalið okkur út úr
Íslandsmótinu í 3.deild karla D-riðli. Ástæðurnar fyrir þessu eru fjölmargar en þær helstar að gríðarlega erfitt hefur
reynst að manna útileiki. Ástæðurnar eru margar og of langt mál er að telja þær upp hér. Félagið verið hálf
aðstöðulaust alla sína tíð sem hefur orsakast í því að liðið nær lítið að æfa milli leikja sem
auðvitað kemur niður á gæðum og gleðinni í knattspyrnunni.
Þegar gleðin er farin úr starfinu er lítið eftir í svona félagi. Undir lokin var svo komið að einungis átta leikmenn voru tiltækir
í ferð sem átti að fara austur um helgina til að leika tvo leiki. Í ljósi þess að liðið þurfti að leika með nokkra
ólöglega leikmenn í fyrri leik í fyrstu ferð sumarsins, fyrr í sumar, þótti ljóst að ekki væri ástandið að
skána neitt hvað þessar ferðir varðar. Tók stjórnin því þá ábyrgðarmiklu ákvörðun að draga
liðið úr þátttöku í stað þess að halda áfram vonlausri baráttu við að manna liðið sem aldrei hefði endað
nema á einn veg.
Okkur er það fyllilega ljóst að þetta kemur illa við félögin sem spila í D-riðli þriðju deildar og viljum við koma á
framfæri innilegum afsökunarbeiðnum til þeirra félaga, þá sér í lagi til þeirra félaga sem hafa nú þegar lagt land
undir fót til þess að spila við okkur hér á Akureyri. Þessi ákvörðun er tekin í algjörri neyð og því miður er
það svo að Draupnir hefur að öllum líkindum leikið sinn síðasta leik í sögu félagsins. Þriggja ára vinnu við að
reyna að koma á fót stöðugu "þriðja" liði á Akureyri er því miður lokið á versta hátt sem við getum hugsað
okkur.
Ætlunin var í upphafi að vera í góðri samvinnu við stóru félögin hér í bæ, Þór og KA. Því
miður varð slíkt samstarf aldrei að neinni alvöru og því var alltaf ljóst að á brattan yrði að sækja fyrir félagi eins og
Draupni án aðstöðu og án stuðnings. Við í stjórninni viljum hins vegar koma á framfæri þökkum til þeirra sem hafa stutt
félagið okkar í gegnum þessi þrjú ár og þá sérstaklega starfsfólki Bogans og Hamars fyrir liðlegheit í okkar
garð. Starfsfólk KSÍ hefur einnig reynst okkur mjög vel og sýnt aðstæðum okkar skilning og ekki síst nú þegar þurfti að taka
þessa erfiðu ákvörðun, kunnum við þeim bestu þakkir fyrir aðstoðina undanfarin ár. Að lokum viljum við þakka
þjálfurum okkar sl. ár þeim Hlyni Birgissyni og Steingrími Eiðssyni fyrir frábært starf við erfiðar aðstæður.
Stjórn Draupnis