Samherji hf. hefur sent frá sér yfirlýsingu, þar sem fyrirtækið telur rétt að koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri í ljósi forsíðufréttar DV í dag. Greinin sé uppfull af rangfærslum, bæði hvað varðar Samherja, dótturfélög Samherja og einnig um það lagaumhverfi sem í gildi er á Kýpur. Á það bæði við um skattareglur og önnur lög er varða fyrirtækjarekstur á Kýpur. Hér á eftir fara nokkur atriði sem mikilvægt er að taka fram vegna þessa:
- Eignir þeirra félaga sem tengjast Samherja á Kýpur eru fyrst og fremst fiski- og þjónustuskip sem stunda fiskveiðar og vinnslu við strendur Afríku.
- Kýpur er eitt af fullgildum ríkjum í ESB og lýtur því lagaumhverfi sem Evrópusambandið hefur sett.
- Skattkerfið er einfalt og reglur skýrar.
- OECD flokkar Kýpur ekki sem skattaskjól. OECD hefur flokkað ríki í þrjá flokka með tilliti til skattareglna. Kýpur er á sama lista og Ísland og því fráleitt að halda því fram að Kýpur sé skattaskjól. Á vef fjármálaráðuneytisins má finna lista yfir lágskattasvæði (http://www.fjarmalaraduneyti.is/verkefni/skattar_og_tollar/nr/13806).
- Skattlagning eignarhaldsfélaga á Kýpur er með svipuðum hætti og á Íslandi.
- Ísland er ekki flokkað sem aflandseyja og skattaskjól frekar en Kýpur.
- Dótturfélög Samherja á Kýpur greiða þarlenda skatta en skatthlutfall sem er greitt er um 16%.
Samherji hefur lýst því yfir að fyrirtækið mun ekki tjá sig frekar um rannsókn gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands í fjölmiðlum fyrr en það mál hefur verið meðhöndlað af dómstólum og svör félagsins munu taka mið af því á meðan að á rannsókninni stendur.