Um er að ræða 32 námskeið, samtals 210 ECTS einingar. Auk þess er nemendum Háskólans á Akureyri boðið að taka próf í samtals 150 námskeiðum í ágúst. Í mörgum tilvikum þurfa þó nemendur að hafa setið áður í námskeiðum til að öðlast rétt til próftöku. Hér á eftir er gerð grein fyrir framkvæmd sumarnámsins.
Nám í viðskiptafræði í samstarfi við viðskiptadeild Háskóla Íslands
Í viðskiptaskor Háskólans á Akureyri hefur verið ákveðið að bjóða upp á kennslu í sex námskeiðum í sumar. Skorin er í samstarfi við Viðskiptadeild HÍ, sem ætlar að bjóða fimm námskeið á sumarönn. Þannig geta nemendur deildanna sótt námskeið í hvorri deildinni sem væri og því líklegra að námskeiðin nýtist nemendum, beggja háskólanna, betur.
Kennsla verður með fjarnámsfyrirkomulagi og verða fjarfundir á dagvinnutíma, þ.e. milli kl. 8 og 16. Lágmarksfjöldi, í hverju námskeiði, verða 15 nemendur. Áætlun þessi hefur verið kynnt fyrir samstarfsaðilum háskólans um fjarnám, sem eru háskólasetur og símenntunarmiðstöðvar um land allt, og eru samstarfsaðilar reiðubúnir að liðsinna nemendum háskólans í fjarnámi í sumar á sama hátt og um sé að ræða nám á hefðbundnum skólatíma.
Auk þessa geta nemendur í viðskiptaskor tekið 100% próf með því að stunda sjálfsnám í sjö námskeiðum í ágúst nk. Þessi námskeið nema samtals 42 ECTS einingum. Nemendum í öðrum deildum HA býðst að taka ofangreind námskeið enda samþykki heimadeild nemandans þau námskeið. Kennarar í viðskiptafræði hafa boðist til að gefa vinnu sína og leyfa afnot af kennsluefni sínu án endurgjalds.
Nám í raunvísindum
Í raunvísindum eru í boði átta námskeið, samtals 52 ECTS einingar. Um er að ræða lesnámskeið með fjarkennslusniði eða lesnámskeið með verklegum æfingum. Sérfræðingar raunvísindaskorar hafa einnig bent á þann möguleika að bjóða nemendum sumarvinnu í verkefnum sínum.
Nám í félagsvísindum
Í félagsvísindum eru í boði fjögur staðkennd námskeið, samtals 24 ECTS einingar.
Kennaranám
Í kennaranámi er um að ræða eitt námskeið í grunnnámi sem yrði fjarkennt. Fyrir nemendur í diplómu- og meistaranámi í kennaraskor verða sex námskeið, samtals 50 ECTS einingar, í boði á sumarmisseri 2009.
Meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun við Háskólasetur Vestfjarða
Háskólasetur Vestfjarða býður upp á meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun í nánu samstarfi við Háskólann á Akureyri. Námskeið meistaranámsins eru í raun formlega eins og hver önnur námskeið við Háskólann á Akureyri og því opin nemendum hans. Heilt sumarmisseri er kennt hjá Háskólasetri Vestfjarða, og í boði eru 60 ECTS einingar. Samtals er um að ræða tíu sex eininga námskeið sem kennd eru í þriggja vikna lotum.