Um áramót tóku gildi breytingar á gjaldskrám Norðurorku. Þessar hækkanir eru tilkomnar ,,vegna greiningar á rekstrarkostnaði og vísitölum og að teknu tilliti til fjárfestingaáætlana" eins og segir á heimasíðu fyrirtækisins.
Á árinu 2025 lét Norðurorka bora tvær vinnsluholur. Borun í Ólafsfirði bar ekki árangur en útlit er fyrir að vel hafi tekist til í Ytri Haga. Þær framkvæmdir sem eftir er að fara í vegna virkjunar á nýju borholunni eru kostnaðarsamar auk þess sem umfangsmiklar rannsóknir standa yfir á starfssvæðinu og munu þær halda áfram næstu ár. Framkvæmdaáætlun hitaveitu gerir ráð fyrir hátt í 2 milljörðum í fjárfestingar á næstu tveimur árum og eru fjárfestingar í hitaveitu um helmingur allra fjárfestinga Norðurorku næstu tvö árin. Því var talið nauðsynlegt að hækka hitaveituna um 5,1% til að mæta þessum miklu framkvæmdum og fjárfestingum. Reykjaveita lækkar hins vegar um 1,4% og er það gert til að leiðrétta gjaldskrá veitunnar til samræmis við samning um Reykjaveitu. Sjá nánar um gjaldskrá hitaveitu
Undanfarin ár hefur eitt af stærstu verkefnum Norðurorku verið að auka orkumátt og flutningsgetu hitaveitunnar í þeim tilgangi að svara aukinni orkuþörf samfélagsins við Eyjafjörð. Enn eru stór verkefni framundan og ljóst er að gjaldskráin mun áfram litast af þeim framkvæmdum. Í því sambandi er mikilvægt að huga að því hvernig við umgöngumst heita vatnið og hvað við sem samfélag getum gert til að nýta jarðhitaauðlindina okkar af ábyrgð, virðingu og án sóunar.
Magn dreifðrar orku í rafveitunni hefur lítið breyst í mörg ár þrátt fyrir fjölgun íbúða og af þeim sökum hafa tekjur ekki vaxið í samræmi við aukið umfang veitukerfisins. Tekjur í rafveitu hafa í nokkur ár verið vanteknar, þ.e. talsvert hefur vantað upp á það að tekjumörk séu nýtt til fulls og mikilvægt er að nálgast þau tekjumörk sem rafveitu eru sett. Halda þarf áfram með það mikilvæga verkefni að spennubreyta eldri hluta dreifikerfisins á Akureyri ásamt því að umtalsverðar nýframkvæmdir eru og verða í gangi næstu ár. Sjá nánar um gjaldskrá rafveitu
Rekstur vatnsveitu er í jafnvægi og tekjur standa undir rekstri. Þrátt fyrir áætlaðar umtalsverðar framkvæmdir á næstu árum er gert ráð fyrir að nýjar tekjur muni duga til að mæta þeim kostnaði til lengri tíma. Stífar kröfur gilda um leyfilegar tekjur og arðsemi vatnsveitu. Vatnsveita Norðurorku er komin í það hámark sem leiðbeiningar og reiknilíkan ráðuneytis sveitarstjórnarmála kveða á um. Sjá nánar um gjaldskrá vatnsveitu
Í nokkur ár hefur Norðurorka framkvæmt virðispróf á veitum fyrirtækisins. Fráveitan hefur komið neikvætt út, þ.e. að tekjur standa ekki undir eignum veitunnar og enn er staðan þannig. Þegar unnið var að gjaldskrá fyrir 2025 kom í ljós að hækka þyrfti gjaldskrá fráveitunnar um 20% til að ná því marki að veitan standist virðispróf. Stjórn taldi á þeim tíma rétt að taka það í hæfilegum skrefum og fara ekki alla leið í það sinn. En það lá fyrir, miðað við ofangreint, að gjaldskrá fráveitu myndi þurfa að hækka umfram verðlag á árinu 2026. Niðurstaða greiningarvinnu sýnir að gjaldskrá fráveitu þurfi að hækka umtalsvert til að standa undir eignum. Sjá nánar um gjaldskrá fráveitu
Eitt af stóru verkefnum fráveitunnar er að minnka rusl í fráveitunni þar sem það skaðar lífríkið, þyngir rekstur fráveitukerfisins og eykur kostnað. Hreinsistöð fráveitu í Sandgerðisbót hefur valdið straumhvörfum í fráveitumálum á Akureyri, meðal annars með því að sía rusl úr fráveituvatninu sem annars hefði hendað út í sjó, auk þess gerlamengun hefur minnkað meðfram strandlengju Akureyrar með tilkomu stöðvarinnar. Munum að klósettið er ekki ruslafata.
Frá þessu segir á heimasíðu Norðurorku, www.no.is