Kæru kirkjugestir
Aðventan er að baki og sjálf jólin standa yfir með sínum hátíðarblæ og fallegu jólaskreytingum sem lýsa upp umhverfið í myrkasta skammdeginu. Það er eitthvað við þennan tíma ársins, þessa dimmustu vetrardaga og gleðina sem jólahátíðin færir okkur. Svo hækkar sólin smátt og smátt á lofti, nýárssólin sem vermir okkur fyrstu janúardagana og gefur fyrirheit um bjarta tíma.
Desember er skemmtilegur tími og það var mikið um viðburði hér í Norðurþingi, hjá kirkjunni, félagasamtökum, verslunum og einstaklingum sem er mjög gefandi og mikilvægt að íbúar taki þátt. Hér á Húsavík voru haldnir markaðir, tónleikar, upplestrar, aðventukvöld, jólahlaðborð, skötuveislur, jólabingó, jólaball, hér var sett upp jólaþorp og fleira sem gladdi unga sem aldna. Við þurfum að muna að það liggur mikil vinna að baki og fórnfýsi fjölda einstaklinga til að gera íbúum glaðan dag. Þá er vert að staldra aðeins við og spyrja sjálfan sig, hvað lagði ég að mörkum? Var ég í þeim hópi sem stóð fyrir einhverjum viðburði? Sótti ég einhverja viðburði? Tók ég þátt í einhverju sem var í boði? Þeir sem geta ekki svarað neinu af þessu játandi og eru við góða heilsu hafa sannarlega mörg tækifæri til úrbóta á nýju ári. Því það er mikilvægt að vera þátttakandi í samfélagi, vera hluti af því að gera samfélagið lifandi og spennandi til búsetu. Og hver einstaklingur skiptir máli. Hann getur auðgað samfélagið svo mikið ef hann kýs að leggja sitt að mörkum og vera virkur þátttakandi.
Ég vil taka eitt dæmi. Nú erum við hér í kirkjunni okkar að njóta samveru og hlýða á söng Kirkjukórs Húsavíkur undir stjórn Attila Szebik. Í kórnum eru hátt í 40 einstaklingar sem hafa ekki bara hist á loftinu í kvöld til að syngja árið út. Nei þau hafa hist við æfingar eða viðburði 109 sinnum á árinu 2025, sem lætur nærri að vera þriðja hvern dag ársins, og oftast í tvo tíma í senn. Þetta gerir í heild um 27 heila átta klst vinnudaga. Þau fylla athafnir af hátíðleik og fegurð, syngja í messum, í jarðarförum, fyrir íbúa í Hvammi og Skógarbrekku, þau halda vortónleika, jólatónleika og koma fram við hátíðleg tækifæri eins og á 17. júní. Hafið kæra þökk fyrir ykkar dýrmæta framlag til samfélagsins okkar.
Á gamlársdag stöndum við á tímamótum. Við lítum yfir farinn veg, með þakklæti fyrir það sem gafst vel, en einnig með auðmýkt gagnvart því sem reyndist erfitt. Um leið og við horfum fram á nýtt ár, fullt af vonum og væntingum, þá eru miklar áskoranir í atvinnulífinu hér á Húsavík og ljóst að næsta ár verður glíma sem við þurfum að stíga saman og vinna.
En þótt við séum núna að ganga í gegn um skafla og öldudal þá erum við í svo miklum sóknarfærum af því við erum Þingeyingar og búum á Húsavík. Hér er orka og innviðir til að stækka atvinnulífið umtalsvert. Hér hefur sveitarstjórnin undanfarin ár lagt alla áherslu á að gera iðnaðarsvæðið á Bakka tilbúið til sóknar. Núna erum við tilbúin og finnum fyrir miklum áhuga á svæðinu, áhuga sem þarf að nýta og koma á legg nýjum atvinnutækifærum. Það verður verkefni næsta árs og næstu ára. Samhliða þarf að hlúa að atvinnulífinu okkar sem fyrir er, leggja áherslu á sköpunarkraftinn sem samfélagið okkar er svo ríkt af, vera stórhuga og sækja fram. Við þurfum ekki á neinum úrtöluröddum að halda. Við þurfum samhyggð, samvinnu og samstöðu samfélagsins alls gagnvart þeim verkefnum sem bíða okkar.
Framundan er nýtt ár, tímamót sem fólk nýtir oft til að horfa inn á við og meta hvernig það vill hafa nýja árið. Að gera nýtt ár að besta ári lífsins snýst ekki um að vera fullkominn eða gera allt rétt, heldur um að lifa meira í takt við sjálfan sig. Að hafa skýra stefnu, fagna framförum og læra af mistökum, veita sjálfum sér mildi, auka rými fyrir gleði, forvitni og hlátur og leggja rækt við sambönd sem næra. Það verður mitt leiðarljós inn í nýtt ár nú sem áður og ég hlakka til að ganga fram veginn með fólkinu í samfélaginu mínu, með bjartsýni fyrir framtíðinni og jákvæðni að leiðarljósi.
Katrín Sigurjónsdóttir, sveitarstjóri Norðurþings