Fyrir marga snúast hátíðirnar um samveru ástvina, þar sem tímanum er varið saman í miðdegislúra eða púsluspil og borðaður er góður matur við hlátrasköll og gantaskap. En það komast ekki allir heim um jólin. Hvort sem það er vegna fjarlægðar, vinnu, ferðalaga eða bara óútreiknanleika lífsins, þá getur reynst einmanalegt að vera fjarri sínum nánustu á þessum tíma árs.
Því er heppilegt að nútíminn bjóði upp á nýjar leiðir til að tengjast þeim sem skipta okkur máli. Ein af þeim óvæntu leiðum eru tölvuleikir.
Sköpun í stafrænu rými
Tökum leikinn Minecraft sem dæmi. Þeir sem þekkja til vita að í grunninn er þetta einfaldur leikur sem snýst um að nota ímyndunaraflið til þess að byggja sér skjól og lifa af í heimi gerðum úr kubbum. Fyrir marga er leikurinn orðinn að stafrænum samkomustað. Notalegt og skapandi rými þar sem fjölskylda og vinir geta hist, spjallað, byggt og hlegið saman, sama hversu langt er á milli þeirra.
Ímyndaðu þér að finna jólatré sem einhver byggði fyrir þig þegar þú skráir þig inn, eða að rölta um snævi þakið þorp skreytt kertaljósum sem þú og systkini þín byggðuð saman. Umhverfið er kannski ekki til í raunheiminum, en hláturinn, samvinnan og tilfinningarnar eru raunverulegar.
Hátíðargleði á tölvuskjá
Það er ekki bara Minecraft sem hefur þessi áhrif. Fjölskyldur sem ekki geta komið saman í raunheiminum finna sér fjölbreyttar leiðir til þess á netinu. Hægt er að reyna á liðsheildina í matreiðsluleiknum Overcooked, þar sem fjölskyldan getur eldað saman hátíðarmat.
Ef eldhúsið vekur jólastress, þá er líka hægt að heimsækja ástvini í Animal Crossing: New Horizons, en um jólin má finna eyjur þaktar snjó og skreyttar af leikmönnum. Kíktu á kaffihús sem vinur þinn byggði og fáðu þér kakóbolla, eða búðu til snjókall með þeim í vetrarparadís.
Tölvuleikir gefa okkur sameiginleg rými þar sem tímabelti og staðsetning skipta litlu máli. Hægt er að skreyta sameiginlegt heimili, skiptast á gjöfum eða einfaldlega spjalla á meðan unnið er að einhverju skemmtilegu saman.

Overcooked
Ný tegund af hefð
Það mætti segja að þessir stafrænu hittingar séu nútímaútgáfa af því sem hátíðirnar hafa alltaf snúist um: tengingu við fjölskyldu og vini. Samveran er kannski með öðrum hætti en áður, þar sem heyrnartól og skjáir koma í stað matarborðs en tengslin eru oft þau sömu.
Það kemur auðvitað ekkert í stað þess að heyra hláturinn án heyrnartóla og sjá bros vina og fjölskyldu með eigin augum. Því þarf líka að huga að neikvæðum áhrifum skjánotkunar, líkt og einangrun eða tölvuleikjafíkn. En allt er gott í hófi.
Eldra fólk spilar líka tölvuleiki
Aukning hefur orðið á því að eldra fólk spili tölvuleiki, ýmist til að tengjast börnum sínum eða einfaldlega sér til skemmtunar. Jafnframt hefur verið talsverð umræða um möguleg jákvæð áhrif tölvuleikja á heilastarfsemi eldra fólks.
Ef foreldrar, afar og ömmur eða aðrir forráðamenn eru forvitnir um hvað börnin þeirra eru að gera í þessum tækjum sínum, þá er aldrei of seint að byrja að spila. Úrvalið af tölvuleikjum hefur aldrei verið meira og því er eitthvað til fyrir alla.
Gleðileg, stafræn jól!
Ef þú getur hitt þá sem skipta þig máli um hátíðirnar, gerðu það! Ef það er ekki mögulegt, prófaðu þá að spyrja þína nánustu hvort þau vilji hittast í notalegum tölvuleik og spjalla um lífið og tilveruna í stafrænum jólapeysum.

Svavar Axel Malmquist Arason/SAM
Greinarhöfundur er nemi á 2. ári í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri (HA). Þessi grein er hluti af lokaverkefni í áfanganum, samkvæmt samningi milli Vikublaðsins og HA.