Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, lítur yfir farinn veg og stiklar á stóru í starfsemi sveitarfélagsins árið 2025.
Enginn fær stöðvað tímans þunga nið, segir í ljóði Davíðs Stefánssonar „Sjá, dagar koma.“ En þótt við getum ekki stöðvað tímann þá er það algjörlega undir okkur sjálfum komið hvernig við verjum honum og má með sanni segja að tíminn hafi verið vel nýttur í þróttmiklu starfi Akureyrarbæjar á árinu sem senn er liðið.
Árið 2025 var ár mikilla framkvæmda og framfara. Við sjáum Haga-, Holta- og Móahverfi taka á sig sífellt skýrari mynd á sama tíma og nýjar hótelbyggingar rísa á miðbæjarsvæðinu og ekki er framkvæmdagleðin minni á svæðum íþróttafélaganna KA og Þórs. Einnig má nefna að ný Torfunefsbryggja var formlega tekin í notkun á árinu og verður spennandi að fylgjast með þeirri uppbyggingu sem þar mun eiga sér stað.
Framkvæmdir í nýju hverfunum okkar og skipulagsmál almennt hafa verið mjög áberandi í starfi sveitarfélagsins og íbúalýðræðið vel virt á þeim vettvangi með opnum kynningarfundum um skipulagsmál sem hafa verið vel sóttir og umræður verið gagnlegar. Íbúalýðræðið var sömuleiðis í hávegum haft þegar boðað var til hverfafunda í grunnskólum bæjarins um það sem vel væri gert og það sem betur mætti fara. Loks voru íbúafundir haldnir í bæði Grímsey og Hrísey þegar við starfsfólk Akureyrarbæjar heimsóttum eyjarnar.
***
Um mitt ár var kynnt ný rannsókn sem sýnir svart á hvítu að gjaldfrjáls sex tíma leikskóli og skráningardagar hafa haft jákvæð áhrif á velferð barna og gæði leikskólastarfs en breytingar á gjaldskrám leikskóla á Akureyri voru samþykktar í bæjarstjórn undir lok árs 2023.
Og meira af leikskólamálum: Síðasta vor var tekin fyrsta skóflustungan að nýjum leikskóla við Naustagötu í Hagahverfi sem hlotið hefur nafnið Hagasteinn og í október var tilkynnt að leikskólinn Iðavöllur hlyti tilnefningu til Íslensku menntaverðlaunanna í flokki framúrskarandi menntastofnana fyrir ötult, fjölbreytt og faglegt þróunarstarf, frumkvæði og metnað. Stanslausar endurbætur fara fram á húsnæði grunnskóla bæjarins og vorið 2025 var meðal annars boðið til vígsluhátíðar á nýrri og stórglæsilegri A-álmu Glerárskóla.
Þá var einnig tilkynnt síðasta vor að nýtt 80 rýma hjúkrunarheimili rísi við Þursaholt 2 í Holtahverfi. Við Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, undirrituðum samkomulag þess efnis og skoðuðum byggingarstaðinn ásamt fulltrúum úr bæjarstjórn, öldungaráði og stjórn Félags eldri borgara á Akureyri. Nú þegar hefur verið bætt um betur og tilkynnt að hjúkrunarheimilið verði ekki með 80 rými heldur 140 sem er stór áfangi.
Stórþing eldri borgara var haldið undir lok maí en markmiðið var að kanna viðhorf fólks sem er 60 ára og eldra til þjónustu Akureyrarbæjar og safna hugmyndum að áframhaldandi þróun þjónustunnar. Þingið var vel sótt og tókst vel. Í nóvember var síðan undirritaður nýr samningur sveitarfélagsins og Félags eldri borgara á Akureyri (EBAK) sem gildir til ársloka 2028 og felur m.a. í sér að Akureyrarbær og EBAK taki höndum saman um að tryggja eldri borgurum á Akureyri aðgang að góðu félags- og tómstundastarfi.
***
Einn af fjölmörgum hápunktum ársins var án efa þegar samþykkt var á Alþingi 22. október sl. þingsályktunartillaga um borgarstefnu þar sem Akureyri er skilgreind sem svæðisborg en svæðisborg er þéttbýlisstaður með sjálfbæra atvinnustarfsemi og þjónustu á flestum sviðum daglegs lífs þar sem almenningur hefur tækifæri til að njóta fjölbreyttrar menntunar, menningar og mannlífs og greiðra samgangna milli landshluta og til útlanda.
Af því tilefni skrifaði ég grein fyrir vefmiðla og sagði meðal annars: „Nú skiptir höfuðmáli að vinna hratt og örugglega að aðgerðaáætlun í öllum helstu málaflokkum svo samþykkt þingsályktunartillaga verði ekki bara orðin tóm og marklaust plagg. Bæjarstjórn Akureyrar er reiðubúin að leggja af mörkum alla þá vinnu sem þarf svo raungera megi þá miklu uppbyggingu sem tíunduð er í borgarstefnunni.“
Það býr ótrúlegur kraftur í samfélaginu okkar og mér finnst eins og allir hjálpist að við að gera Akureyri að sífellt eftirsóttari stað til búsetu. Það er nýr bragur yfir bænum, Norðausturland vekur sífellt meiri áhuga ferðafólks og má í því samhengi þakka beint millilandaflug um Akureyrarflugvöll sem er án efa komið til að vera og þyrfti helst að vera a.m.k. tvisvar í viku allan ársins hring.
Í byrjun júlí undirritaði ég fyrir hönd sveitarfélagsins samning um nýtingu glatvarma frá gagnaveri atNorth til samfélagsverkefna á Akureyri, m.a. til upphitunar á nýju gróðurhúsi sem reist verður og rekið á samfélagslegum forsendum. Auk bæjarins og atNorth koma Ferro Zink og Gróðrarstöð Akureyrar að verkefninu, en markmiðið er m.a. að skapa lærdómsumhverfi til vistvænnar ræktunar fyrir nemendur á grunn- og framhaldsskólastigi á Akureyri. Þannig fá ungir Akureyringar tækifæri til að kynnast sjálfbærri matvælaframleiðslu og betri orkunýtingu í verki. Þessi samningur er að mínu viti stórt framfaraskref og algjörlega í takti við þær ríku áherslur sem sveitarfélagið leggur á að Akureyri verði leiðandi í orkunýtingu og sjálfbærni. Það er gleðilegt að ráðist verði í svo mikilvægt samfélagsverkefni samhliða einni stærstu uppbyggingu í atvinnulífi okkar síðustu áratugina.
***
Hér að framan hefur mér orðið tíðrætt um framkvæmdir og uppbyggingu mannvirkja en auðvitað þarf líka að efla andann og menningarleg verðmæti, og má í því samhengi vitna til orða Nóbelskáldsins okkar, Halldórs Kiljan Laxness, sem orti „því hvað er auður og afl og hús ef engin jurt vex í þinni krús.“
Og menningin blómstrar sannarlega nú sem aldrei fyrr á Akureyri. Menningarfélag Akureyrar er öflugt og stendur fyrir frábærum viðburðum á sviði tónlistar og leiklistar, sömuleiðis Listasafnið þar sem hafa verið haldnar merkilegar sýningar, m.a. á verkum Margrétar Jónsdóttur leirlistakonu og Óla G. listmálara. Grasrótin er ekki síður mikilvæg og hefur mjög látið að sér kveða.
Árlegir íþrótta- og menningarviðburðir í bænum bera hróður okkar um víðan veg. Má nefna að bærinn iðaði af lífi á vel heppnaðri fjölskylduhátíð, Einni með öllu, um verslunarmannahelgina og ekki var stemningin síðri þegar 163. ára afmæli Akureyrarbæjar var fagnað undir lok ágúst. Barnamenningarhátíð heppnaðist afar vel og boðið var upp á skemmtilega öðruvísi viðburði á Hinsegin hátíð á Norðurlandi, svo fátt eitt sé nefnt. Metfjöldi var á 49. Andrésar Andar leikunum og bærinn fylltist af fólki þegar N1 mótið og Pollamótið fóru fram. Íþróttafólkið okkar er í fremstu röð. Það sýnir að aðstaðan sem við höfum og erum að byggja upp skilar okkur framúrskarandi iðkendum.
***
Rekstur sveitarfélagsins gekk vel á árinu og í fjárhagsáætlun fyrir árið 2026 er áætlað að niðurstaðan verði jákvæð um 1.659 m.kr. og afkoman fari batnandi til ársins 2029 sem er heldur betur gleðilegt. Sterkur rekstur sveitarfélagins og öflugt atvinnulíf eru algjör forsenda þess að við getum byggt upp öflugt velferðarsamfélag sem tekur utan um alla íbúa.
Við getum því horft björtum augum fram á veg og þótt okkur muni aldrei takast að stöðva tímans þunga nið þá ráðum við því sjálf hvernig við verjum þeim tíma sem okkur er gefinn.
Sjá, dagar koma, ár og aldir líða,
og enginn stöðvar tímans þunga nið.
Í djúpi andans duldir kraftar bíða.
Hin dýpsta speki boðar líf og frið.
Í þúsund ár bjó þjóð við nyrstu voga.
Mót þrautum sínum gekk hún, djörf og sterk.
Í hennar kirkjum helgar stjörnur loga,
og hennar líf er eilíft kraftaverk.
(Davíð Stefánsson)
Ég vil að lokum þakka þá velvild og þann stuðning sem ég hef verið svo lánsöm að njóta á árinu sem er að líða og óska ykkur öllum gleðilegra jóla, árs og friðar.
Ásthildur Sturludóttir
Fyrst birt á vef Akureyrarbæjar