Vorum að kafna í flugstjórnarklefanum segir annar flugmaðurinn

Mikil mildi þykir að ekki fór verr þegar lítil eins hreyfils flugvél, með tvo menn innanborðs, nauðlenti á Melgerðismelum í Eyjafjarðarsveit í morgun, eftir að flugstjórnarklefinn fylltist af reyk. "Við vorum að kafna en það bjargaði miklu að við gátum opnað litlar lúgur og þannig fengið inn ferskt loft í flugstjórnarklefann. Við vorum hætt komnir, enda er ekkert verra en reykur eða eldur í fluginu," sagði Daníel Stefánsson, sem flaug flugvélinni ásamt félaga sínum Kurt Kohler.  

Daníel og Kurt flugu frá Akureyrarflugvelli í morgun og voru staddir um 60 km suður af Akureyri þegar þeir fundu skrýtna lykt og snéru þá strax við. Flugstjórnarklefinn fylltist af reyk en þeir flugu vélinni á eigin vélarafli um 10 km til baka en drápu svo á hreyflingum og svifu um 40 km að Melgerðismelum. Daníel segir þar hafi öllu máli skipti í hversu mikilli hæð þeir voru, um 8.500 fetum, eða um 2,6 km hæð. Nauðlendingin tókst vel og flugstjórnarklefinn þá orðin nánast reyklaus. Daníel segir líklegt að olíuleki við túrbínu hafi orskað reykinn en hann segir þeir vilji skoða hvernig á því stóð að allur þessi reykur komst inn í flugstjórnarklefann. Fluvélin, sem Daníel segir að megi kalla ferðamótorsviflugu, er í eigu Svifflugfélags Íslands, og með gott svif. Þá eru Daníel og Kurt vanir svifflugsmenn og Daníel segir að reynsla þeirra í sviffluginu hafi skipt miklu máli við þessar aðstæður. Fulltrúar frá rannsóknarnefnd flugslysa eru væntanlegir norður síðar í dag.

Nýjast