Hinir árlegu Andrésar Andar leikar á skíðum verða haldnir í Hlíðarfjalli á Akureyri um helgina, dagana 19.-21. apríl. Mótsetning verður næstkomandi miðvikudag og skrúðganga frá Glerártorgi kl. 20:00. Von er á 660 keppendum á mótið í ár frá helstu skíðafélögum landsins og er það svipaður fjöldi og var í fyrra. Nægur snjór er í Hlíðarfjalli og spáin ágæt fyrir næstu daga. Það er því von á að aðstæður til skíðaiðkunnar verði kjörnar þessa þrjá mótsdaga.
Að vanda verður keppt í alpagreinum (svig og stórsvig) og skíðagöngu og þá verður einnig sú nýjung í ár að keppt verður á snjóbretti. Segja má að sú nýjung sé í takt við tímann en sjóbrettaiðkun hér á landi hefur sótt hratt í sig veðrið undanfarin ár. Von er á að 30 keppendur munu spreyta sig í keppni á snjóbretti og verður keppt í tveimur greinum. Verðlaunaafhending og kvöldvaka verður eftir hvern keppnisdag en mótslit verða kl. 15:00 á laugardaginn.