VISA-bikar: KA áfram eftir framlengingu

KA komst í kvöld áfram í 32-liða úrslit VISA-bikarkeppni karla í knattspyrnu er liðið lagði Dalvík/Reyni að velli á Akureyrarvelli. Staðan eftir venjulegan leiktíma var 1-1, svo grípa þurfti til framlengingar. Þar reyndust KA- menn sterkari og uppskáru að lokum 4-1 sigur.

Fyrsta mark leiksins kom á 5. mínútu og það gerðu gestirnir eftir að hafa fengið dæmda vítaspyrnu. Norbert Farkas jafnaði leikinn fyrir heimamenn með góðum skalla á 28. mínútu. Staðan í hálfleik 1-1.

Seinni hálfleikur var eign heimamanna en þeim tókst ekki að nýta sér marktækifærin svo grípa þurfti til framlengingar. Heimamenn reyndust sterkari á endasprettinum og þrjú mörk frá þeim Steinari Gunnarssyni, Bjarna Pálmasyni og Guðmundi Óla Steingrímssyni tryggði sigurinn fyrir heimamenn. Lokatölur á Akureyrarvelli, 4-1 sigur KA- manna.

Ítarleg umfjöllun verður um leikinn í Vikudegi nk. fimmtudag.

Nýjast