„Viljum enda þetta ár með sigri“

Akureyri sækir Val heim í síðustu umferð N1-deildar karla fyrir jóla-og HM frí en liðin mætast í Vodafonehöllinni í dag kl. 15:45. Leikurinn er afar mikilvægur fyrir bæði lið sem eru á svipuðum slóðum í deildinni. Akureyri hefur 12 stig í fimmta sætinu en Valur hefur 11 stig sæti neðar. „Þetta er svakalega mikilvægur leikur fyrir okkur. Við erum búnir að vera á góðu skriði og viljum enda þetta vel fyrir jól," segir Sævar Árnason aðstoðarþjálfari Akureyrar í samtali við Vikudag. Valsmenn hafa verið rokkandi það sem af er tímabils og nái Akureyri upp sömu stemmningu og í undanförnum leikjum segir Sævar að möguleikarnir séu góðir. „Þeir í Val hafa í raun verið í sömu sporum og við. Verið svona upp og niður og að fá menn til baka eftir meiðsli. Þetta er ágætis lið en við stefnum að sjálfsögðu á tvö stig og það væri frábært að komast í 14 stig fyrir hlé.“
Ánægður með stöðuna
Akureyringar hafa heldur betur stigið á bensíngjöfina eftir afar slaka byrjun á tímabilinu. Liðið vann einn leik af fyrstu sex en hefur nú ekki tapað í síðustu fimm leikjum, unnið fjóra og gert eitt jafntefli. Nú síðast vann Akureyri topplið Hauka á dramatískan hátt á heimavelli, 20-19, þar sem sigurmarkið kom á lokasekúndunni. Hlutirnir því farnir að líta mun betur út fyrir norðanmenn eftir rýra uppskeru í byrjun. „Það má eiginlega segja að fyrstu leikirnir hafi verið eins og á undirbúningstímabili því að í allt sumar og allt haust hafa meira en minna verið 3-4 leikmenn meiddir. Við höfum aldrei á neinum tímapunkti síðan við byrjuðum að æfa í sumar verið með fullan hóp. Þetta hefur verið svolítið skringilegt og ennþá eru tveir leikmenn meiddir en það eru samt alltaf að koma fleiri og fleiri inn í þetta. Þannig að við erum bara sáttir með stöðuna eins og hún er núna og svo stefnum við á að æfa vel í janúar og koma ennþá sterkari til leiks í febrúar,“ segir Sævar.

Nýjast