Vilja reisa nýtt hjúkrunarheimili fyrir allt að 60 einstaklinga

Biðlistar eru langir eftir plássi á Hlíð en nýtt hjúkrunarheimili mun hýsa 60 einstaklinga. Mynd/Þrö…
Biðlistar eru langir eftir plássi á Hlíð en nýtt hjúkrunarheimili mun hýsa 60 einstaklinga. Mynd/Þröstur Ernir.

Bæjarráð Akureyrar hefur lýst yfir vilja til að ráðist verði í nýbyggingu hjúkrunarheimilis fyrir allt að 60 einstaklinga og mun tilkynna velferðarráðuneytinu um vilja bæjaryfirvalda. Akureyrarbær skipaði verkefnahóp í apríl í fyrra til að vinna tillögur um framtíðarmótun í þjónustu við eldra fólk á Akureyri.

Í niðurstöðu verkefnahópsins segir m.a. að fara þurfi í endurbætur og uppbyggingu húsnæðis ÖA til að heimilin verði í stakk búin til að takast á við fyrirsjáanleg verkefni á næstu árum. Þá er einnig tillaga hjá verkefnahópnum um að byggja nýtt hjúkrunarheimili í stað endurbóta.

Úrelt að stenst ekki nútímakröfur

Elsti hluti núverandi húsnæðis á Dvalarheimilinu Hlíð er úreltur og stenst ekki nútímakröfur eins og Vikudagur fjallaði um sl. vetur. Forstöðumaður á Hlíð sagði þá í samtali við blaðið að framtíð öldrunarmála í bænum væri í mikilli óvissu og algjört úrræðaleysi ríkti í málaflokknum. Þá benti hann á að starfsfólk væri að kikna undan álagi og biðlistar langir eftir plássi á Hlíð.

Guðmundur Baldvin Guðmundsson, formaður bæjarráðs Akureyrar, segir að með verkefnahópnum hafi bærinn viljað kalla fram þá valkosti sem væru í stöðunni varðandi húsakost hjúkrunarheimilanna.

Skoða möguleikann á endurbótum

„Við viljum skoða hver framtíðarsýnin er. Fjármálaáætlun ríkisins gerir ráð fyrir byggingu hjúkrunarheimilis á Akureyri og með bókun bæjarráðs erum við að lýsa yfir vilja til þess að farið verði í þær framkvæmdir,“ segir Guðmundur Baldvin. Hann segir málið vera á byrjunarreit. „Samhliða uppbyggingu nýs heimilis munum við svo skoða möguleikann á endurbótum og nýtingu á eldra húsnæði ÖA,“ segir Guðmundur.

Akureyrarbær greiddi alls 843 milljónir króna með rekstri Öldrunarheimilanna á árunum 2012­2016 þar sem daggjöld frá ríkinu dugðu ekki fyrir rekstrinum. Bæjaryfirvöld fóru fram á það við stjórnvöld að þau endurgreiddu þessa upphæð en þeirri kröfu var hafnað.

Funda með heilbrigðisráðherra

Guðmundur Baldvin segir að bæjaryfirvöld muni funda með heilbrigðisráðherra um málefni aldraðra í októ­ber. Hann bendir á að samningur Akureyrarbæjar við Sjúkratryggingar Íslands um rekstur Öldrunarheimilanna renni út um áramótin.

„Við viljum heyra frá stjórnvöldum hvernig þau sjá hlutina fyrir sér. Við viljum bæði ræða núverandi rekstrarfyrirkomulag og daggjaldagreiðslur og einnig hvaða stefnu menn vilja taka í þessum málum til framtíðar. Markmið viðræðanna verður að áfram sé hægt að veita öldruðum mannsæmandi þjónustu á hjúkrunarheimilum Akureyrarbæjar.“

Í upphafi ársins 2018 voru alls um 720 íbúar 80 ára og eldri á Akureyri. Þá voru á ÖA 183 rými, 171 hjúkrunarrými og 12 dvalarrými.

Nýjast