Vilja festa millilandaflug um Akureyrarflugvöll í sessi

Tillaga til þingsályktunar um nýsköpunarátak til að stórefla heilsársferðaþjónustu úti á landi, var lögð fram á Alþingi í vikunni.  Alls standa 18 þingmenn úr öllum flokkum nema Hreyfingunni að tillögunni, þar af 9 þingmenn í Norðausturkjördæmi en fyrsti flutningsmaður er Sigmundur Ernir Rúnarsson.  

Samkvæmt tillögunni ályktar Alþingi að fela iðnaðarráðherra að hlutast hið fyrsta til um að hafið verði nýsköpunarátak í ferðaþjónustu úti á landi í þeim þríþætta tilgangi að fjölga erlendum ferðamönnum utan háannatíma á Íslandi, bæta við áfangastöðum á landinu svo álag á ferðamannastaði dreifist betur yfir landið - og nýta betur og efla öll þau fjölmörgu samgöngu- og menningarmannvirki sem ríki og sveitarfélög hafa fjárfest í víðs vegar um landið. Fram kemur m.a í greinargerð, að með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að ríkið leggi til samtals 75 milljónir króna á árunum 2012, 2013 og 2014 svo hefja megi sérstakt átak til að festa millilandaflug um Akureyrarflugvöll í sessi og auka þar með tækifæri ferðaþjónustunnar á svæðinu, ekki síst með það í huga að dreifa ferðamannaálaginu um landið og lengja ferðamannatímann - og horfa þar sérstaklega til vetrarferða útlendinga til Íslands. Lagt er til að átakið verði sjálfstætt samvinnuverkefni Íslandsstofu, ISAVIA og Markaðsstofu ferðamála á Norðurlandi með beinum stuðningi innanríkis- og iðnaðarráðuneytisins sem fara með málefni samgangna og ferðamála. Megin áhersla átaksins verði að markaðsetja nýjan áfangastað á Íslandi fyrir erlenda ferðasala og flugrekendur auk þess að tengja saman helstu hagsmunahópa á heimasvæðinu; svo sem yfirvöld samgöngumála og sveitarstjórna, stjórnendur í ferðaþjónustu, menningarlífi og matargerð, svo og markaðsfólk og rannsakendur í greininni. Ráðgert er að fjöldi stöðugilda verði 4-6.

Ennfremur kemur fram í greinargerðinni að með þingsályktunartillögu þessari er brugðist við gríðarlegri fjölgun erlendra ferðamanna til landsins á síðustu árum - og þeim spám að fjöldi þeirra muni tvöfaldast á næstu 10 árum. Ljóst er að margir helstu ferðamannastaðir á suðvestanverðu landinu, sem liggja næst Keflavíkurflugvelli, þola vart eða ekki meiri ásókn ferðamanna á háannatíma, nema gripið sé til aðgerða sem mögulega spilla ásýnd og yfirbragði þess sem þeir sækjast eftir. Einn helsti veikleiki íslenskrar ferðaþjónustu er annars vegar mikið álag á ferðamannastaði yfir sumartímann og hins vegar lítil dreifing erlendra ferðamanna utan höfuðborgarsvæðisins og suðvesturlands utan sumartímans.

Í þessari tillögu er sérstaklega horft til þess svæðis á landinu utan stærsta þéttbýliskjarnans sem getur með auðveldustum hætti tekið við auknum straumi ferðamanna á næstu árum, en þar er átt við svæðið frá Húnavatnssýslum og austur á firði með augljósum miðpunkti í Eyjafirði þar sem fullbúinn millilandaflugvöll er að finna, svo og sterka innri samfélagsgerð í lang fjölmennasta þéttbýliskjarnanum utan höfuðborgarsvæðisins.

Þá er það einnig liður í tillögunni að nýta betur innviði ferðaþjónustunnar utan höfuðborgarsvæðisins. Þar nægir að nefna lengingu millilandaflugvallarins á Akureyri, nýleg (og áætluð) jarðgöng í Eyjafirði, uppbyggingu Vetraríþróttamiðstöðvar Íslands á sama stað, viðamikla og stóraukna rannsóknarþjónustu Háskólans á Akureyri og byggingu Menningarhússins Hofs. Ferðaþjónusta á Norðurlandi, og raunar víðar á þeim svæðum sem liggja fjærst suðvesturhorninu, hefur að mörgu leyti liðið fyrir þá staðreynd að yfirgnæfandi meirihluti ferðamanna sem kemur til landsins, rúmlega 97,7% (skv. tölum ISAVIA frá 2009), fer um Keflavíkurflugvöll og dvelur þar af leiðandi mestmegnis á sunnan- og vestanverðu landinu.

Til samanburðar má geta þess að hlutdeild Akureyrarflugvallar í þessum hópi ferðamanna er innan við hálft prósent. Gagnaöflun á sviði ferðamála, sem er m.a. í höndum Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands, virðist sýna að staðsetning flugvallar skiptir sköpum um ferðamynstur fólks: Þeir sem lenda í Keflavík dvelja að meðaltali 1,8 nótt á Norðurlandi, en þeir sem lenda á Akureyri dvelja að meðaltali 7,8 nætur á Norðurlandi. Dæmið snýst algerlega við hjá þeim erlendu ferðamönnum sem fljúga beint til Akureyrar, 20 prósent þeirra ferðast um sunnanvert landið, en 92 prósent þeirra verja mestum ferðatíma sínum á Norðurlandi.

Í greinargerðinni kemur einnig fram að undanfarin misseri hafa ferðamálafrömuðir á Norðurlandi beitt sér í auknum mæli fyrir markaðssetningu Akureyrarflugvallar fyrir erlend flugfélög, svo ferðaþjónusta á Norðurlandi geti dafnað og fest sig betur í sessi en verið hefur á síðustu áratugum. Það er eftir miklu að slægjast. Millilandaflug um Akureyrarflugvöll hefur ekki náð að festa sig í sessi á undanliðnum árum og áratugum. Skýringar eru margar, en þær helstar að fjármagn, jafnt opinbert sem og frá einkaaðilum, hefur tilfinnanlega skort til markaðssetningar á flugvellinum á erlendri grundu. Þá má og skrifa það á reikning stjórnvalda og forkólfa í ferðaþjónustu að nýir áfangastaðir í þjónustu við erlenda ferðamenn á Íslandi, aðrir en Keflavík, hafa lítt eða ekki verið skoðaðir af alvöru; áhersla við opinbert kynningarátak fyrir ferðaþjónustu hefur svo að segja öll miðað að því að efla flug um Keflavíkurflugvöll. Enda þótt umtalsverð fjölgun hafi orðið á komum erlendra ferðamanna til Akureyrarflugvallar á undanliðnum árum, en nærri lætur að farþegum hafi fjölgað að meðaltali um 60 prósent á síðustu 11 árum, hafa töluverðar sveiflur verið í fjölda farþega í millilandaflugi á þessari leið. Fullljóst er hins vegar að Akureyrarflugvöllur ræður við töluverða fjölgun flugfarþega frá því sem nú er í eðlilegu árferði. Að sögn Sigurðar Hermannssonar, umdæmisstjóra ISAVIA á Norðurlandi, er talið að miðað við núverandi aðstæður geti völlurinn annað 5 til 7 meðalstórum farþegaþotum í viku hverri, án aukins tilkostnaðar.

Árið 2009 lauk umtalsverðum endurbótum á vellinum, en þær kostuðu ríkissjóð 1,7 milljarð króna. Auk uppsetningar á nýjum og fullkomnum aðflugsljósabúnaði var völlurinn lengdur um 460 metra og er flugtakslengd hans nú allt að 2550 metrar, sem þýðir að um völlinn geta farið allar helstu farþegaþotur sem nú eru í notkun í heiminum. Rétt er að taka fram að það aukna millilandaflug, sem hér er nefnt, mun vitanlega þrengja að því mikla innanlandsflugi sem nú fer um völlinn og því er mikilvægt að stýra flugtímum eins og frekast er kostur til að nýta mannvirki og mannskap á sem hagkvæmastan hátt. Deiliskipulag og teikning að stækkun flugstöðvar og flughlaða norðan núverandi aðalbyggingar á vellinum liggur fyrir, en það verk hefur tafist vegna erfiðleika við fjármögnun eins og margar aðrar samgönguframkvæmdir á síðustu árum. Áætlaður kostnaður við stækkun stöðvar og hlaðs er um 1 milljarður króna.

Verði þingsályktunartillaga þessi samþykkt, er eðlilegt að horft verði til þess að flýta þeim framkvæmdum á Akureyrarflugvelli sem að ofan greinir, enda ljóst að þær miklu annir sem nú eru í innanlandsflugi á staðnum setja hömlur á vöxt í millilandaflugi. Rétt er í þessu efni að benda á að meðalvöxtur í innanlandsflugi á síðustu 40 árum hefur numið 3%, þrátt fyrir miklar vegabætur og fækkun áfangastaða úr liðlega 30 í 10 á sama tímabili - og er aukningin langmest um Akureyrarflugvöll, segir í greinargerð með tillögunni.

Aðrir flutningsmenn tillögunnar eru Álfheiður Ingadóttir, Ásbjörn Óttarsson, Birkir Jón Jónsson, Björn Valur Gíslason, Einar K. Guðfinnsson, Gunnar Bragi Sveinsson, Höskuldur Þór Þórhallsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Kristján Þór Júlíusson, Kristján L. Möller, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Magnús Orri Schram, Ólína Þorvarðardóttir, Skúli Helgason, Tryggvi Þór Herbertsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og Þuríður Backman. 

 

Nýjast